Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar yfir síðastliðna 12 mánuði, nú að liðnum október, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað fyrir hádegi hinn 12. nóvember. Nú fetum við okkur af stað með þá nýbreytni að birta fleiri niðurstöður tengdar kjötframleiðslunni en áður hefur verið gert. Vonandi verður það til nokkurs fróðleiks. Hér á eftir verður farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 444 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði að þessu sinni til 112 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu.
Reiknuð meðalnyt 24.529,5 árskúa á búunum 444 var 6.524 kg. eða 6.790 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 444 búum var 55,2.
Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var eins og undanfarið á búi Eyvindar og Aðalbjargar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum, en meðalkýrin þar mjólkaði 9.189 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Annað á listanum eins og síðustu mánuði var bú Brynjólfs og Piu – Hellisbúsins ehf., í Kolsholti 1 þar sem meðalnyt árskúa var 8.904 kg. Þriðja eins og í síðasta mánuði var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi, Rang. þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.795 kg. að meðaltali.
Nythæst á síðustu 12 mánuðum var Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 15.161 kg. á fyrrgreindu tímabili. Næst henni kom Stör 1132 (f. Dynur 16002) í Kolsholti 1 í Flóa en nyt hennar var 14.938 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja var Epoxy 752 (f. Gnýr 15040) á Tannstaðabakka og reyndist hún hafa mjólkað 14.686 kg. á tímabilinu.
Alls náðu 201 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir síðasta mánuð hafði verið skilað frá undir hádegi þann 12. nóvember, að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuði. Af þeim hópi mjólkuðu 53 kýr 12.000 kg. eða meira og 12 af þeim skiluðu afurðum yfir 13.000 kg. á tímabilinu. Af þeim síðasttöldu mjólkuðu síðan 5 kýr meira en 14.000 kg. og þar af ein sem náði að skila afurðum yfir 15.000 kg.
Meðalfjöldi kúa á þeim 112 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 31,7 við lok október en árskýrnar á þeim búum voru á þeim tíma 26,8 að jafnaði. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 6.925,4 kg. á undanförnum 12 mánuðum.
Meðalfallþungi 9.537 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,3 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 731,8 dagar.
Tveir nýir listar hafa nú bæst við hið birta uppgjör. Annar listinn er yfir bú þar sem meðalvöxtur sláturgripa náði 350 g. á dag eða meira á þeim umræddu 12 mánuðum sem uppgjörið nær yfir. Þar er í fyrsta sæti að þessu sinni búið á Efstalandi í Öxnadal þar sem meðalgripurinn óx um 626,6 g. hvern dag, en gripirnir voru aldir í tæplega 467 daga að meðaltali. Næsta bú sem þarna birtist er Reykir í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þar sem tæplega 537 daga gamlir gripir náðu að vaxa að meðaltali 603,0 g. á dag. Þriðja búið sem er að finna á listanum er Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem gripirnir uxu að meðaltali 557,2 g. á dag á ríflega 645 daga vaxtartíma.
Síðarnefndi listinn geymir upplýsingar um bú þar sem fallþungi gripa var 250 kg. að meðaltali eða meira. Fyrst á þeim lista er Breiðaból á Svalbarðsströnd þar sem 806,2 daga gamlir gripir vógu að jafnaði 402,7 kg. Næst birtist Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem meðalfallþungi 645,5 daga gamalla gripa reyndist 369,3 kg. Þriðja efsta búið sem er að finna á listanum er Saurbær í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þar sem skrokkþungi 719,6 daga gamalla gripa var 363,9 kg. að meðaltali
Rétt er að minnast þess að þetta er aðeins brot af því sem er að finna á þessum listum og ekki er hér í fréttinni rætt sérstaklega um fjölda sláturgripa á tímabilinu, en eins og gefur að skilja ræður bústærð hver sá fjöldi er á hverjum stað.
Þess má geta hér að lokum að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2024