Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar nú í febrúar

Þrándur frá Þorleifsstöðum í Skagafirði, undan Risa 15014 og Spennu 486.
Þrándur frá Þorleifsstöðum í Skagafirði, undan Risa 15014 og Spennu 486.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn febrúar, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöður skýrslnanna byggjast á skilum eins og þau voru að morgni hins 11. mars.

Þegar niðurstöðurnar sem nú hafa verið birtar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 482 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 122 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.114,2 árskúa á búunum 482 reyndist 6.350 kg eða 6.364 kg OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 50,0.

Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var á búi Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal, 8.881 kg. Annað í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt eftir árskú reiknaðist 8.746 kg. á tímabilinu. Þriðja að þessu sinni var bú Páls Jóhannssonar í Núpstúni í Hrunamannahreppi þar sem meðalárskýrin skilaði 8.640 kg. á fyrrnefndu 12 mánaða tímabili. Fjórða var bú Arnfríðar Jóhannsdóttur í Dalbæ 1, einnig í Hrunamannahreppi, þar sem meðalnyt árskúa reiknaðist 8.524 kg. Fimmta búið nú við lok febrúar var bú Gísla og Jónínu á Stóru-Reykjum í Flóahreppi þar sem meðalnyt árskúanna reyndist 8.312 kg. á tímabilinu.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuði var Bára 523 (f. Sandur 07014) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð sem mjólkaði á tímabilinu 14.891 kg. Næst á eftir henni kom Snúra 546 (f. Dúllari 07024) í Dalbæ 1 í Hrunamannahreppi en afurðir hennar voru 13.597 kg. á tímabilinu. Þriðja í röðinni að þessu sinni var Ríkey 691 (f. Bingó 607, sonur Bamba 08049 og dóttursonur Flóa 02029) í stóra-Dunhaga í Hörgárdal en hún mjólkaði 13.015 kg. á síðustu 12 mánuðum. Hið næsta henni var Skör 1003 (f. Flekkur 08029) í Hvammi í Ölfusi en nyt hennar reyndist vera 12.806 kg. á umræddu tímabili. Fimmta að þessu sinni var Lísa 985 (f. Plútó 14074) í Hrepphólum í Hrunamannahreppi sem mjólkaði alls 12.767 kg. síðustu 12 mánuði.

Alls náðu 120 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir febrúar hafði verið skilað frá að morgni þess 11. mars, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim mjólkuðu 31 yfir 12.000 kg. á tímabilinu. Af þeim hópi skiluðu þrjár meiri nyt en 13.000 kg. og ein af þeim mjólkaði yfir 14.000 kg. eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á hreinu kjötframleiðslubúunum reiknaðist 26,4 en árskýrnar þar voru að jafnaði 25,1 við lok janúar. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum sl. 12 mánuði reyndist 6.021,1 kg.

Meðalfallþungi 9.651 ungnauts á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 255,0 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 750,0 dagar.

 

Sjá nánar:

https://www.rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2022