Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í mars

Óðinn frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, undan Kláusi 14031 og Gefjun 1614, dóttur Úlla 10089.
Óðinn frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, undan Kláusi 14031 og Gefjun 1614, dóttur Úlla 10089.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar nú í mars, eru ný sýnilegar á vef okkar. Niðurstöður skýrslnanna frá mjólkurframleiðendunum byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga undir hádegi þ. 12. apríl og sömu sögu er að segja um niðurstöðurnar frá nautakjötsframleiðendunum.

Þegar niðurstöðurnar sem nú hafa verið birtar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 504 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 111 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.655,6 árskúa á fyrrnefndum 504 búum var 6.376 kg eða 6.423 kg OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á búunum 504 var 48,9.

Meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var mest á búi Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal, 8.843 kg. Annað í röðinni var bú Rúts og Guðbjargar á Skíðbakka í Landeyjum þar sem samsvarandi tala reyndist 8.439 kg. Þriðja búið í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt árskúnna var 8.371 kg. síðustu 12 mánuðina. Hið fjórða efsta var bú Hákonar og Þorbjargar á Svertingsstöðum 2 í Eyjafjarðarsveit þar sem meðalárskýrin skilaði 8.358 kg. á umræddu tímabili. Fimmta sætið átti að þessu sinni bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal þar sem meðalafurðir árskúa reiknuðust 8.214 kg. á síðustu 12 mánuðum.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuði reyndist vera Gola 694 (undan Þyt 09078) í Egilsstaðakoti í Flóa en nyt hennar var 14.257 kg. Hið næsta henni kom Auðhumla 370 (einnig undan Þyt 09078) í Skipholti 1 í Hrunamannahreppi en hún mjólkaði samtals 13.988 kg. á umræddu tímabili. Þriðja efsta kýrin að þessu sinni var Drífa 935 (f. Afli 11010) í Hólmi í Landeyjum en nyt hennar reiknaðist 13.819 kg. Fjórða nythæst var Rauðka 2460 (f. Borði 2167, sonur Víðkunns 06034) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð en hún skilaði 13.508 kg. Fimmta í röðinni nú var Gæsla 1075 (f. Bambi 08049) í Reykjahlíð á Skeiðum sem skilaði afurðum upp á 13.417 kg. á tímabilinu.

Alls náðu 117 kýr á mjólkurframleiðslubúunum 504, sem afurðaskýrslum fyrir mars hafði verið skilað frá nokkru fyrir hádegi 12. apríl að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim mjólkuðu 32 meira en 12.000 kg. Af þeim hópi náðu 8 kýr að mjólka 13.000 kg. og þar yfir. Af þeim skilaði ein nyt sem var talsvert yfir 14.000 eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 25,7 en árskýrnar voru að meðaltali 22,6. Meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 5.428,8 kg.

Meðalfallþungi 8.927 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 253,5 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 749,0 dagar.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk