Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir næstliðna 12 mánuði, þegar september er á enda runninn, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram að hádegi þann 11. október.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 460 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.697,8 árskúa á búunum 460 reiknaðist 6.418 kg. eða 6.479 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á því 12 mánaða tímabili sem uppgjörið nær yfir. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 53,7.
Mest meðalnyt árskúa á uppgjörstímabilinu, síðustu 12 mánuðum var á búi Eyvindar og Aðalbjargar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum, 8.987 kg. Næst í röðinni var bú Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi, þar sem meðalnytin reyndist að þessu sinni 8.747 kg. eftir árskú. Þriðja var bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem hver árskýr mjólkaði 8.638 kg. á uppgjörstímabilinu. Fjórða í röðinni var bú Guðrúnar og Óskars á Tannstaðabakka við Hrútafjörð en þar var meðalnyt árskúa nú 8.464 kg. Í fimmta sæti varð bú Hrepphóla ehf. í Hrepphólum í Hrunamannahreppi þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist 8.372 kg. Efstu fimm búin eru þau sömu og röð þeirra hin sama og fyrir mánuði síðan.
Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 15.171 kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni varð Flauta 841 (f. Bakkus 12001) á Tannstaðabakka við Hrútafjörð en nyt hennar reyndist 14.126 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Þriðja í röðinni að þessu sinni var kýr nr. 862 (f. Plútó 14074) í Nesi í Höfðahverfi, sem mjólkaði 14.061 kg. á umræddu tímabili. Fjórða varð Droplaug 875 (f. Dropi 10077) í Dalbæ í Flóa sem mjólkaði 14.041 kg. Fimmta kýrin var List 843 (f. Úlli 10089) í Hlíð í hinum forna Gnúpverjahreppi, en nyt hennar var 13.820 kg. síðustu 12 mánuðina.
Alls náðu 194 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir september hafði verið skilað frá undir hádegi þann 11. október að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuðina. Af þeim hópi mjólkuðu 63 kýr yfir 12.000 kg. og 17 þeirra fóru yfir 13.000 kg. nyt síðustu 12 mánuði. Enn má fikra sig upp eftir listanum og þegar kemur upp fyrir 14.000 kg. eru fjórar kýr eftir og ein þeirra mjólkaði á 16. þúsund kg. samanber það sem áður getur.
Meðalfjöldi kúa á þeim 125 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 28,1 við lok september en árskýrnar á þeim búum voru að meðaltali 24,8. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum reyndist 7.309,8 kg. á undanförnum 12 mánuðum.
Meðalfallþungi 9.807 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, undanfarna 12 mánuði, var 255,7 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 746,9 dagar.
Athugið að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði eins og bent hefur verið á áður.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023