Niðurstöður skýrsluhalds í sauðfjárrækt 2013

Um helgina rann út skilafrestur í skýrsluhaldinu í sauðfjárræktinni vegna ársins 2013. Um helmingur bænda var búinn að skila inn gögnum í lok nóvember og síðustu vikur hefur það sem uppá vantaði verið að skila sér inn. Á þessu ári færist skilafresturinn fram um einn mánuð, þ.e. til 31. desember nk. sbr. breytingar á reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/2013. Enn á eftir slá inn nokkrum bókum og gera má ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á næstu 2-3 vikum.

Afurðir á landinu 2013 urðu síst minni en árið 2012 þrátt fyrir að munað hafi um 310 grömmum í fallþunga dilka milli ára. Munar þar mest um að frjósemi var meiri vorið 2013 en árið þar á undan. Þó eru afurðir víðast talsvert minni um sunnan- og vestanvert landið en meiri um austan- og norðaustanvert landið. Tíðarfarið sumarið 2013 hefur þar mikið að segja en talsvert var um stórrigningar á sunnan- og vestanverðu landinu seinnihluta sumars meðan veður var betra í öðrum landshlutum.

Líkt og undanfarin ár eru nú birtir listar yfir bú í skýrsluhaldinu, þar sem náðist góður árangur. Líkt og fyrir ári síðan er bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum með mestar afurðir eða 39,5 kíló eftir ána. Næst kemur bú þeirra Guðbrands og Lilju á Bassastöðum við Steingrímsfjörð með 39,4 kíló og þriðja í röðinni er Félagsbúið að Lundi á Völlum, Fljótsdalshéraði með 38,1 kíló. Öll eiga þessi bú það sammerkt að um vorið bar þar hver kind tæplega tveim lömbum að meðaltali. Aðeins eru birt bú þar sem afurðir eru 29 kíló eða meira eftir ána, heldur færri bú náðu þeim mörkum árið 2013 en árið 2012.

Best gerðu sláturlömbin eru á búi Jóns og Ernu á Broddanesi 1 í Kollafirði með gerðareinkunn 11,55, næst kemur Félagsbúið á Flögu í Þistilfirði með einkunnina 11,44 og þriðja í röðinni er bú Jóhönnu og Gunnars á Akri í Austur-Húnavatnssýslu með einkunnina 11,34. Öll hafa þessi bú verið í hópi efstu búa undanfarin ár. Aðeins eru birt bú sem ná einkunn 9,5 eða hærra, færri bú náðu þeim mörkum haustið 2013 en árið 2012 þrátt fyrir að meðalgerð sláturlamba væri sú sama yfir landið.

Bú með 29 kíló eða meira eftir hverja á, þar sem fleiri ær en 100 eru á skýrslum
Bú með 35 kíló eða meira eftir hverja á, óháð fjölda kinda á skýrslum
Bú með 9,5 eða meira í gerð og kjötmat á fleiri en 100 dilkum 

 /eib