Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni í september 2016

Grundi 14088
Grundi 14088

Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni nú í september hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til um þrjúleytið síðdegis þ. 11. október, höfðu skýrslur borist frá 89% af þeim búum sem skráð voru til þátttöku en þau voru samtals 571. Reiknuð meðalnyt 22.860,3 árskúa á þessum 89% búanna, var 6.195 kg á síðustu 12 mánuðum. Sambærileg tala frá því fyrir mánuði síðan var 6.163 kg. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 44,9 á tímabilinu en var 44,6 fyrir mánuði. Hafa þarf enn í huga að hér er um að ræða 89% skil skýrslna og skoða þarf niðurstöðurnar í því ljósi.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og við seinasta uppgjör, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr mjólkaði þar 8.764 kg. á tímabilinu. Búið í öðru sæti listans var bú Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd í Dölum þar sem hver árskýr skilaði 8.433 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni var bú Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, en þar var nytin 8.274 kg. Fjórða í röðinni nú við lok september var bú Sigrúnar og Ármanns í Lyngbrekku II á Fellsströnd þar sem meðalafurðir árskúnna reyndust 8.190 kg. Fimmta búið nú var síðan bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi þar sem meðalnytin reyndist 8.141 kg. eftir árskú.

Nythæsta kýrin nú við lok septembermánaðar var Agla nr. 361 (f. Þrasi 98052) í Viðvík í Viðvíkursveit í Skagafirði, en hún mjólkaði 13.340 kg. sl. 12 mánuði. Önnur í röðinni var Urður 1326 (f. Steini 259, undan Mána 03025) í Birkihlíð í Skagafirði en hún skilaði 13.055 kg. á tímabilinu. Hin þriðja á listanum að þessu sinni var Gola 970 (f. Hjarði 06029) á Gili í Borgarsveit í Skagafirði en hún mjólkaði 12.370 kg. á síðustu 12 mánuðum. Fjórða nythæsta kýrin við nýliðin mánaðamót var Aska 1722 (f. Vegbúi 08058) í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu en sú kýr mjólkaði 12.723 kg. sl. 12 mánuði. Fimmta kýrin á listanum yfir nythæstu kýrnar við lok september sl. var Storma 1439 (f. Kasper 1386 undan Takti 06046) í Birkihlíð, á sama búi og Urður sem var í öðru sætinu. Storma mjólkaði 12.676 kg. síðustu 12 mánuði.

Alls náði 71 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir september hafði verið skilað frá nú um þrjúleytið þ. 11. október, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. 17 af þeim náðu að skila meiri mjólk en 12.000 kg. og tvær af þeim meiru en 13.000 kg.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk