Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni í september 2013

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í september hafa verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar. Við uppgjörið hafði verið skilað skýrslum frá 92% af þeim 584 búum sem eru skráð í skýrsluhaldið. Reiknuð meðalnyt 20.914,3 árskúa var 5.631 kg sem er 1 kg lækkun frá síðasta uppgjöri. Meðalfjöldi árskúa á búum þeim sem skýrslum hafði verið skilað frá var 39,0.

Hæsta meðalnytin á tímabilinu var á búi Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal, 7.681. kg eftir árskú en það bú var annað í röðinni fyrir mánuði síðan. Næst á eftir var bú Eggerts Pálssonar á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð en þar var meðalnytin 7.591 kg eftir árskú. Efstu búin höfðu haft sætaskipti frá því í lok ágúst. Þriðja búið á listanum en hið fimmta í síðasta mánuði var bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði en þar voru afurðirnar 7.538 kg á árskú. Fjórða í röðinni var Félagsbúið í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum en þar var reiknuð meðalnyt 7.507 kg eftir árskú. Búið í Ytri-Skógum var í þriðja sæti við síðasta uppgjör. Fimmta búið að þessu sinni var bú Valdimars Óskars Sigmarssonar í Sólheimum í hinum gamla Staðarhreppi í Skagafirði með reiknaða meðalnyt 7.505 kg eftir árskú. Á 25 búum var reiknuð meðalnyt á síðustu 12 mánuðum hærri en 7.000 kg eftir árskú en á 21 búi við uppgjörið eftir ágúst.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Drottning nr. 324 í Geirshlíð í Flókadal í Borgarfirði (f. Fontur 98027) og mjólkaði hún 11.948 kg á tímabilinu. Drottning var einnig efst á þessum lista á uppgjöri ágústmánaðar. Önnur í röðinni eins og síðast var Urður nr. 1229 á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði (f. Laski 00010) og mjólkaði hún 11.933 kg sl. 12 mánuði. Sú þriðja í röðinni, einnig sama og síðast, var kýr nr. 528 í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum (f. Baugur 05026) en nyt hennar var 11.912 kg. Hin fjórða var kýr nr. 1094 í Bjólu 2 í Rangárþingi ytra (f. nr. 988 undan Laska 00010). Hún mjólkaði 11.771 kg á síðustu 12 mán. Fimmta kýrin var Ábót nr. 514 á Vöglum í Blönduhlíð í Skagafirði en nyt hennar var 11.717 kg á tímabilinu. Alls náðu 13 kýr að mjólka yfir 11.000 kg á umræddu tímabili sem er sjö kúm fleira en við seinasta uppgjör.

Niðurstöður skýrsluhaldsins í nautgriparæktinni.

/sk