Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni í október 2013

Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni í október 2013 hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar niðurstöðurnar urðu til á miðnætti aðfaranótt 11. nóvember var búið að skila skýrslum októbermánaðar frá 92% hinna 584 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Reiknuð meðalnyt 21.033,5 árskúa var 5.646 kg síðastliðna 12 mánuði sem er 15 kg meira en við lok september. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem búið var að skila skýrslum frá á fyrrnefndum tíma var 39,0 og hafði ekki breyst frá mánuðinum á undan.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum var á búi Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal, sama búi og við síðasta uppgjör, 7.658 kg á árskú. Annað í röðinni að þessu sinni var bú Félagsbúsins í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum, búið sem var nr. 4 á listanum fyrir mánuði, en þar var meðalnytin 7.576 kg á árskú á tímabilinu. Þriðja í röðinni var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal í A-Hún. en þar reiknaðist meðalnytin á síðustu 12 mánuðum 7.487 kg. Númer 4 var bú Eggerts Pálssonar á Kirkjulæk í Fljótshlíð, bú sem var í öðru sæti síðast, en þar var nyt árskúnna 7.482 kg. Fimmta búið á listanum var bú Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós og þar mjólkuðu árskýrnar 7.472 kg að meðaltali á síðustu 12 mánuðum. Á 27 búum reiknaðist meðalnytin 7.000 kg eða meiri. Við síðasta uppgjör voru búin sem náðu því marki 25 en 21 við uppgjörið þar á undan.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var kýr nr. 528 í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum (f. Baugur 05026) en hún mjólkaði 12.287 kg á tímabilinu. Þessi kýr var nr. 3 í röðinni við síðasta uppgjör. Önnur nythæsta kýrin við lok október var kýr nr. 1094 í Bjólu 2, áður í Djúpárhreppi, nú í Rangárþingi ytra (f. nr. 988 undan Laska 00010) en hún mjólkaði 12.114 kg á tímabilinu. Þriðja nythæsta kýrin að þessu sinni var Tvíti2 nr. 501 í Laxárholti (f. Hersir 97033). Hún mjólkaði 11.974 kg sl. 12 mánuði. Fjórða í röðinni var Huppa 1123 á Stóra-Ármóti (f. Kappi 01031) sem skilaði 11.689 kg á tímabilinu. Fimmta kýrin var Uppgjör nr. 616 í Stærra-Árskógi (f. Geddi nr. 588 undan Meitli 98008) en nyt hennar var 11.558 kg fyrrnefnt tímabil. Fjórtán kýr mjólkuðu yfir 11.000 kg síðustu 12 mánuði og þar af tvær yfir 12.000 kg. Í þeim hópi fjölgaði um eina kú frá síðasta uppgjöri.


Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni

/sk