Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni í maí 2013

Hæsta meðalnyt á tímabilinu var á búi Eggerts Pálssonar á Kirkjulæk í Fljótshlíð, 7.775 kg á árskú og er það sama búið og var í efsta sæti við síðasta uppgjör. Næsta bú í röðinni var bú Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós en þar reiknaðist nytin 7.672 kg á árskú og er búið í sama sæti og fyrir mánuði síðan. Þriðja í röðinni í uppgjörinu nú var bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði með 7.635 kg afurðir á árskú síðustu 12 mánuði. Það bú var hið fjórða í röðinni síðast. Fjórða búið í röðinni við uppgjör maímánaðar var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal og hið fimmta var bú Arnfríðar og Jóns Viðars í Dalbæ í Hrunamannahreppi. Á 25 búum var reiknuð meðalnyt á síðustu 12 mánuðum hærri en 7.000 kg eftir árskú.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Urður nr. 1229 á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði og mjólkaði hún 12.300 kg sl. 12 mánuði. Hún var nr. 2 í röðinni við seinasta uppgjör. Önnur í röðinni núna var kýr nr. 474 á Eystra-Seljalandi undir Eyjafjöllum og hafði hún skipt um sæti við stöllu sína Urði á Hvanneyri frá síðustu apríllokum. Nyt kýr nr. 474 á sl. 12 mánuðum var 12.178 kg. Þriðja nythæsta kýrin var Treyja nr. 387 í Hrepphólum í Hrunamannahreppi sem mjólkaði 12.171 kg á síðustu 12 mánuðum og hafði hækkað sig um eitt sæti. Alls náðu 7 kýr að mjólka yfir 11.000 kg á umræddu tímabili, jafnmargar og við seinasta uppgjör. Af þessum 7 mjólkuðu 3 yfir 12.000 kg á tímabilinu.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhaldsins í nautgriparæktinni

/sk