Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar í mars 2013

Hæsta meðalnyt á tímabilinu var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 7.795 kg á árskú. Næst í röðinni var bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar var meðalnytin 7.733 kg eftir árskú. Þriðja búið var bú Arnfríðar og Jóns Viðars í Dalbæ í Hrunamannahreppi en meðalnytin þar reiknaðist 7.654 kg á árskú. Tvö efstu búin voru hin sömu á næsta 12 mánaða tímabili á undan en bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá var í þriðja sæti á því tímabili. Á 25 búum var reiknuð meðalnyt á síðustu 12 mánuðum hærri en 7.000 kg eftir árskú.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var nr. 474 á Eystra-Seljalandi undir Eyjafjöllum en nyt hennar var 13.386 kg. Önnur í röðinni var Urður nr. 1229 á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði sem mjólkaði 12.792 kg á tímabilinu. Hin þriðja var Skerpa nr. 493 á Reykjum á Skeiðum með 11.751 kg á síðustu 12 mánuðum. Tvær efstu kýrnar eru hinar sömu og fyrir mánuði síðan en hafa nú skipt um sæti. Sú sem var nr. 3 seinast, Hönk nr. 476 í Nesi í Höfðahverfi, reiknast nú hin sjöunda í röðinni. Alls náðu 11 kýr að mjólka yfir 11.000 kg á umræddu tímabili, þar af tvær yfir 12.000 og önnur þeirra yfir 13.000 kg.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds í nautgriparækt

/sk