Niðurstöður kynbótamats hrossa að loknum vorsýningum á Íslandi 2022

Eins og hefðbundið er á landsmótsári hefur kynbótamat verið uppreiknað að loknum vorsýningum á Íslandi. Ástæðan er valkvæð afkvæmasýning stóðhesta sem náð hafa lágmörkum til verðlauna fyrir afkvæmi. Lágmörkin eru eftirfarandi: Stóðhestar sem ná 118 stigum í kynbótamati aðaleinkunnar eða aðaleinkunnar án skeiðs og a.m.k. 15 fullnaðardæmd afkvæmi hljóta 1. verðlaun fyrir afkvæmi og stóðhestar með sömu lágmörk kynbótamats og a.m.k. 50 fullnaðardæmd afkvæmi hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Röðun hestanna innbyrðis á landsmóti byggir á aðaleinkunn kynbótamats. Alls fylgja sex afkvæmi fyrstu verðlauna stóðhestum til sýningar á stórmóti og tíu með heiðursverðlaunahestum.

Nýr kynbótamatsútreikningur hefur því verið settur inn á WorldFeng fyrir alls 474.326 hross. Fjöldi alþjóðlegra kynbótadóma (fullnaðardóma) sem lágu til grundvallar útreikningnum að þessu sinnu voru 35.098 talsins og skiptist eftir löndum: Ísland 21.840, Svíþjóð 4.284, Þýskaland 3.578, Danmörk 2.709, Noregur 1.232, Austurríki 374, Finnland 289, Holland 301, Bandaríkin 224, Kanada 117, Sviss 102 og Bretland 39. Alls var tekið tillit 958 arfgerðargreindra hrossa í útreikningum.

Kynbótamat er birt óháð öryggi, vert er þó að vekja athygli á að spá með öryggi undir 60% verður að túlkast með varúð. Öryggið byggir á magni upplýsinga (fjölda kynbótadóma skyldra einstaklinga) að baki útreikningum og er því kynbótamat afkvæmahesta með einatt hátt öryggi. Kynbótamat þeirra endurspeglar því vel gildi þeirra til framræktunar, þ.e. hverju þeir geta skilað til afkvæma sinna miðað við opinbert ræktunarmarkmið íslenska hestsins.

Kynbótamatið er kvarðað út frá meðaltali hrossa í útreikningunum fæddum á Íslandi síðustu 10 árin og var viðmiðunarhópurinn að þessu sinni því fæddur árin 2013 – 2022. Meðaltal kynbótamats er skorðað við 100 og hvert staðalfrávik eðlisfars eiginleika eru 10 stig. Neðstu og efstu hross liggja því milli 70 og 130 stig með örfáum hrossum utan þeirrar spannar.

/okg