Niðurstöður heysýna

Teknar hafa verið saman niðurstöður 779 heysýna sem hafa borist af öllu landinu nú í haust. Helstu niðurstöður eru í meðfylgjandi töflu. Efsta línan í töflunni sýnir meðaltal allra sýnanna en þar fyrir neðan hafa þau verið flokkuð niður eftir landsvæðum. Flest sýni eru af Norðurlandi en töluvert mörg einnig af Suðurlandi. Færri sýni eru af Vesturlandi og mjög fá af Austurlandi.

Áhrifa veðurfars gætir mjög greinilega í niðurstöðunum sem kemur auðvitað ekkert á óvart.

Sýnin af Vesturlandi og Suðurlandi eru að meðaltali þurrari en sýni af Norður og Austurlandi. Meltanleikinn er mjög svipaður en þó er hann heldur lægri í sýnunum af Norður- og Austurlandi en af Vestur- og Suðurlandi. Próteinið er að meðaltali gott á öllu landinu en áberandi er hátt hlutfall af lausu próteini á Norðurlandi. Einnig er ammoníak-N leiðinlega hátt að meðaltali á Norður- og Austurlandi. NDF eða trénið er flott, kannski svona í lægri kantinum af meðaltali að vera en það sem er sérstakt í ár er að iNDF-meðaltalið er mjög hátt, en iNDF er sá hluti NDF sem er ómeltanlegur og nýtist því ekki í framleiðslunni. Þetta háa hlutfall iNDF kemur til lækkunar á meltanleikanum og einnig við orkuútreikninga. Sykur í heyjum er hæstur á Vesturlandi og þar eru heyin þurrari en annars staðar á landinu. Próteinið er heilt yfir gott á landinu og því verður AAT-gildið einnig gott. PBV-gildið er einnig á góðu róli en sýnin að norðan og austan lyfta því meðaltali upp, sem kemur til af lægra þurrefnisinnihaldi heyjanna þar og meiru af lausu próteini. Orkan á landsvísu er í lagi en þó ekki frábær að meðaltali. Það sem lækkar hana helst er hátt iNDF og þar með lægri meltanleiki og oft á tíðum var misheppnuð gerjun í blautara fóðrinu.

Innihald kalsíum, fosfór og natríum í heyinu er heldur lægra en almenn viðmið eru um æskilegt magn þessara efna. Magn af magnesíum, brennisteinni og kalí er hins vegar í lagi. Breytileiki í steinefnainnihaldi heyja er mismikill eftir því hvaða efni er um að ræða og hlutföll steinefna í einstökum sýnum geta stundum verið óheppileg. Má í þessu samhengi nefna kalí sem stundum er mjög hátt en getur einnig verið mjög lágt í öðrum tilvikum. Mikið kalí getur t.a.m. hindrað upptöku á kalsíum og magnesíum. Heyin á Norðurlandi eru kalsíumríkustu heyin en á Austurlandi eru þau fosfórríkust. Kalí er mest í heyjum á Suðurlandi og síðan á Austurlandi. Natríum er mest í heyjum á Suður- og Vesturlandi. Innihald heyja af magnesíum og brennisteini er ekki breytilegt eftir landshlutum.

Í haust hafa ráðunautar RML unnið hörðum höndum að fóðuráætlanagerð og þá einkum fyrir fyrir kúabændur. Ráðgjöfin er sniðin að hverjum og einum en í flestum tilfellum felur hún í sér túlkun á heysýnaniðurstöðum hvers og eins þar sem dregin eru fram helstu einkenni fóðursins og hvernig það nýtist í framleiðsluna. Þá er fundið kjarnfóður sem hentar hverju sinni bæði gróffóðrinu og þeim markmiðum sem bóndi setur sér í framleiðslunni, nyt, efnainnihaldi, heilsufari o.s.frv.

Við hvetjum bændur til að hafa samband ef það er eitthvað sem þarf að ræða varðandi fóðrunina. Þeir ráðunautar sem vinna fóðuráætlanir í vetur eru:

  • Lena Reiher
  • Gunnar Guðmundsson
  • Þórður Pálsson
  • Eiríkur Loftsson
  • Berglind Ósk Óðinsdóttir
  • Elin Nolsøe
  • Guðný Harðardóttir
  • Jóna Þórunn Ragnarsdóttir
  • Baldur Örn Samúelsson
  • Guðfinna Lára Hávarðardóttir 

bóó/okg