Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni í nýliðnum nóvember

Lói frá Stúfholti 2 í Holtum - mynd frá Nautastöðinni á Hesti.
Lói frá Stúfholti 2 í Holtum - mynd frá Nautastöðinni á Hesti.

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni nú í nóvember hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til nokkru eftir hádegi þann 11. desember, höfðu skýrslur borist frá 547 búum. Reiknuð meðalnyt 24.785,6 árskúa á þessum búum, var 6.194 kg á síðustu 12 mánuðum og hafði hækkað um 35 kg. frá fyrra mánuði. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 45,3. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu og taka mið af því þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar. Þar að auki eru þær niðurstöður sem sjást í töflunum á vef okkar frá búum sem skýrslum hefur verið skilað frá með sem jöfnustu millibili undanfarna mánuði og rétt að skoða þær einnig með tilliti til þess.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og við seinustu uppgjör, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði 8.962 kg. síðustu 12 mánuðina. Annað búið í röðinni nú var einnig hið sama og síðustu mánuði, bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalkýrin skilaði 8.367 kg. á tímabilinu. Þriðja búið á listanum var, líkt og seinast, bú Gautsstaða ehf. á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd þar sem meðalárskýrin skilaði 8.265 kg. Fjórða búið eins og fyrir mánuði var bú Ingimars Jónssonar á Flugumýri í Blönduhlíð en meðalárskýrin þar mjólkaði nú 8.182 kg. Fimmta búið að þessu sinni var Hvanneyrarbúið ehf. en meðalnyt árskúnna þar var 8.174 kg. á tímabilinu.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú var sú sama og seinast, Lotta 564 (f. Lykill 02003) á Kúskerpi í Blönduhlíð, sem mjólkaði 13.381 kg. undanfarna 12 mánuði. Önnur í röðinni nú var kýr nr. 851 (f. Ýmir 715 undan Skandal 03034) á Innri-Kleif í Breiðdal eystra en nyt hennar reyndist 13.328 kg. síðustu 12 mánuði. Þriðja í röðinni var Sigga 955 (f. Boli 620 undan Kastala 07003) í Þrándarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en hún skilaði 13.316 kg.

Alls náðu 73 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir nóvember hafði verið skilað frá eftir hádegið þ. 11. desember, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 27 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og þar af fjórar yfir 13.000 kg.

Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk