Niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn september

Nökkvi frá Engihlíð í Vopnafirði, undan Títan 17036 og Sunnu 1189. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.
Nökkvi frá Engihlíð í Vopnafirði, undan Títan 17036 og Sunnu 1189. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar yfir síðastliðna 12 mánuði, nú að loknum september, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað fyrir hádegi hinn 11. október.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 434 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði að þessu sinni til 114 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.950,2 árskúa á búunum 434 var 6.548 kg. eða 6.809 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 434 búum var 55,2.

Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var líkt og undanfarið á búi Eyvindar og Aðalbjargar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum, en meðalnytin þar síðustu 12 mánuði var 9.188 kg. Annað á listanum líkt og síðustu mánuði var bú Brynjólfs og Piu – Hellisbúsins ehf., í Kolsholti 1 þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist 8.888 kg. Þriðja var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi, Rang. þar sem meðalárskýrin mjólkaði nú 8.771 kg. að jafnaði. Fjórða í röðinni að þessu sinni varð bú Hermanns og Sigrúnar á Tannstaðabakka við Hrútafjörð en þar voru meðalafurðir árskúnna á síðustu 12 mánuðum 8.719 kg. Fimmta að þessu sinni var bú Stóra-Dunhaga ehf. í Stóra-Dunhaga í Hörgárdal þar sem hver árskýr skilaði að meðaltali 8.526 kg. á uppgjörstímabilinu.

Nythæst á síðustu 12 mánuðum var kýrin Rauðhetta 850 (f. Sjarmi 12090) á Tannstaðabakka við Hrútafjörð sem mjólkaði 15.497. kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni reyndist vera Stör 1132 (f. Dynur 16002) í Kolsholti 1 í Flóa en nyt hennar var 15.406 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst henni kom kýr nr. 1049 (f. Græðir 18004) í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum sem mjólkaði 14.914 kg. á umræddu tímabili. Fjórða á listanum, á sama stað og síðustu mánuði, var Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 14.594 kg. á fyrrgreindu tímabili. Fimmta reyndist vera Epoxy 752 (f. Gnýr 15040) á Tannstaðabakka og reiknaðist nyt hennar vera 14.468 kg. á tímabilinu.

Alls náðu 198 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir síðasta mánuð hafði verið skilað frá undir hádegi þann 11. október, að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuði. Af þeim hópi mjólkuðu 54 kýr 12.000 kg. eða meira og 15 þeirra skiluðu afurðum yfir 13.000 kg. á umræddum tíma. Af þeim síðasttöldu mjólkuðu síðan 5 kýr meira en 14.000 kg. og enn fremur náðu tvær þeirra að skila afurðum yfir 15.000 kg. sem er eitthvað sem við höfum ekki oft séð í uppgjöri sem þessu.

Meðalfjöldi kúa á þeim 114 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 31,5 við lok september en árskýrnar á þeim búum voru á þeim tíma 26,2 að meðaltali. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 6.660,5 kg. á undanförnum 12 mánuðum.

Meðalfallþungi 9.498 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,5 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 733,2 dagar.

Þess má enn geta hér að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði.

Sjá nánar:

rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2024