Niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktarinnar fyrir júlímánuð

Hrollur frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð, undan Kalda 21020 og Gleði 1203. Mynd: Nautastöðin Hesti.
Hrollur frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð, undan Kalda 21020 og Gleði 1203. Mynd: Nautastöðin Hesti.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar yfir síðustu 12 mánuði, að liðnum júlí, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað að morgni hins 14. ágúst.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 441 búi en uppgjör kjötframleiðslunnar náði að þessu sinni til 118 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.302,8 árskúa á búunum 441 var 6.524 kg. eða 6.495 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu. Meðalfjöldi árskúa á búunum 441 var 55,1.

Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var líkt og undanfarið á búi Eyvindar og Aðalbjargar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum, en meðalnytin þar reiknaðist nú 9.127 kg. Annað á listanum að þessu sinni var bú Brynjólfs og Piu – Hellisbúsins, í Kolsholti 1 þar sem meðalnyt árskúnna reyndist að þessu sinni vera 8.684 kg. Þriðja var síðan bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem hver árskýr skilaði að jafnaði 8.585 kg. mjólkur á tímabilinu. Fjórða var bú Hermanns og Sigrúnar á Tannstaðabakka við Hrútafjörð þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.543 kg. Fimmta í röðinni var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.487 kg. á síðustu 12 mánuðum.

Nythæst á síðustu 12 mánuðum, eins og fyrir mánuði, var Stör 1132 (f. Dynur 16002) í Kolsholti 1 í Flóa en nyt hennar reyndist 15.910 kg. á tímabilinu. Næst henni í röðinni, einnig á sama stað og við lok júní, var Prikla 1228 (f. Flýtir 17016) í Hvammi í Ölfusi sem mjólkaði 15.239 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni varð kýr nr. 1049 (f. Græðir 18004) í Stóru-Mörk 1 en nyt hennar á tímabilinu var 14.376 kg. Fjórða á listanum, á sama stað og seinast, var Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 14.140 kg. Fimmta var Sumarlín 2499 (f. Balti 17002) í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem skilaði 14.028 kg. mjólkur síðustu 12 mánuðina.

Alls náðu 159 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir síðasta mánuð hafði verið skilað frá að morgni þess 14. ágúst að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuði. Af þeim hópi mjólkuðu 53 kýr 12.000 kg. eða meira og 12 af þeim skiluðu afurðum yfir 13.000 kg. á umræddu tímabili. Af þeim mjólkuðu síðan fimm yfir 14.000 kg. eins og fram kemur hér á undan, en enn fremur skiluðu tvær þær nythæstu afurðum yfir 15.000 kg. sem eru hreint ekki svo litlar afurðir og rétt er að nefna að sú nythæsta var komin nærri 16.000 kg. sem er eftirtektarvert.

Meðalfjöldi kúa á þeim 118 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 30,1 við lok júlí en árskýrnar á þeim búum voru á þeim tíma 24,5 að jafnaði. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 6.853,6 kg. á undanförnum 12 mánuðum.

Meðalfallþungi 9.609 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,9 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 736,3 dagar.

Vert er að nefna að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði eins og áður hefur komið fram.

Sjá nánar:

rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023