Muninn 16-840 felldur vegna gulrar fitu

Ákveðið hefur verið að fella hrútinn Muninn 16-840 frá Yzta-Hvammi þar sem mjög sterkar vísbendingar eru um að hann beri erfðagalla sem tengist gulri fitu í lambakjöti. Þessi erfðagalli er þekktur í stofninum en sem betur fer er langt síðan að hann hefur komið fram í afkvæmum sæðingastöðvahrúts. Gul fita er fyrst og fremst galli sem gerir ásýnd kjötsins ólystugari og slíkir skrokkar eru því ekki spennandi söluvara.

Grunurinn um að Muninn gefi gula fitu byggir á upplýsingum um tvö sláturlömb sem komu fram í haust með gula fitu og einnig um afkomanda hans sem virðist bera gallann. Því miður var þessi mynd bara að skýrast núna á síðustu dögum. Það er því ljóst að nokkuð er til af ásetningslömbum undan þessum annars öfluga kynbótahrút. Bændur eru eindregið hvattir til að framrækta Muninn ekki svo þessi óheppilegi erfðagalli breiðist ekki út í stofninum. Fyrir þá sem eiga hrúta undan honum er einlægast að nota þá ekki til undaneldis þannig að menn freistist ekki til að setja á lömb undan þeim.

Hinsvegar má segja að ef menn ákveða að nota hrúta undan Muninn og ætla sér að skera allt undan þeim næsta haust þá er það líka kostur í stöðunni. Ef fram koma lömb með gula fitu þá verður vissulega eitthvert fjárhagslegt tjón af því en menn fá þá líka upplýsingar um að þessi galli sé til fyrir í hjörðinni. Gul fita er víkjandi erfðagalli sem erfist með einföldum erfðum. Gallinn þarf því að erfast bæði frá föður og móður til að koma fram í afkvæminu en vegna þessa getur hann dulist í marga ættliði. Helmingur afkvæma Munins er líklegur til að bera erfðagallann. Ef menn setja á hrút undan honum og ekkert lamb greinist með gula fitu, getur það þá annaðhvort verið vegna þess að hrúturinn slapp við að fá gallann eða vegna þess að engin af mæðrum lambanna bar hann.

Ef vitað er um fleiri dæmi um gula fitu eða aðra erfðagalla sem huganlega geta tengst sæðingastöðvahrútunum eru bændur eindregið hvattir til að láta okkur ráðunautana vita og má gjarnan senda skeyti á ee@rml.is. 

/okg