Meiri mjólk

Góð aðsókn var á haustfundi Landssambands kúabænda sem haldnir voru víðs vegar um landið fyrir skemmstu, enda viðfangsefni fundanna sú spennandi staða sem nú er í mjólkurframleiðslunni. Á fundunum hafa tækifæri til aukningar mjólkurframleiðslu verið bændum efst í huga og hvaða úrræði séu til að nýta þau. Staða kvótakerfisins var talsvert rædd og líkleg þróun á verði greiðslumarks ásamt því að kynbótastarfið og staða kúastofnsins bar talsvert á góma.

Ráðunautar RML sóttu þessa fundi til þess að taka þátt í umræðum um hvað gera megi til að auka mjólkurframleiðslu næstu misserin. Það er alveg ljóst að ýmislegt er hægt að gera til þess að auka framleiðsluna á næstunni. Sá mikli breytileiki sem er á afurðum milli kúabúa hérlendis sýnir það svo ekki verður um villst.

Þegar horft er til þess hvernig auka megi mjólkurframleiðslu er annars vegar um að ræða að bregðast við til skemmri tíma eins og mjólkuriðnaðurinn hefur óskað eftir og hins vegar til lengri tíma. Samkvæmt spám um neyslu á næstu tíu árum er ljóst að auka þarf framleiðslu mjólkur frá því sem nú er. Kúabændur eiga því engan annan valkost í stöðunni en að auka við framleiðsluna til þess að anna eftirspurn markaðarins.

Þegar horft er til skemmri tíma þarf að bregðast hratt við og þá kemur einkum tvennt til greina. Annars vegar er það að seinka förgun þeirra kúa sem nú þegar eru í framleiðslu og hins vegar að auka afurðir með betri og markvissari fóðrun og jafnvel aðbúnaði. Hafi menn húspláss og aðstöðu er tiltölulega einfalt að seinka förgun þeirra gripa sem komnir eru að enda síns framleiðsluskeiðs. Skilyrði er að sjálfsögðu að viðkomandi gripir séu nægilega hraustir. Betri og markvissari fóðrun er eilítið meira átak og þar þarf líka að gæta hagkvæmnisjónarmiða. Það er ekki endilega rétta leiðin að stórauka kjarnfóðurgjöf því huga þarf að hver gróffóðurgæðin eru og hvernig kjarnfóður hentar best með viðkomandi gróffóðri. Þá þarf einnig að gæta að því að tilkostnaðurinn verði ekki meiri en tekjuaukningin þegar upp er staðið. Sem betur fer höfum við verkfæri í höndunum sem geta hjálpað okkur hvað þennan þátt snertir en það er fóðuráætlanagerð. Með vel unninni fóðuráætlun má ekki einungis auka mjólkurframleiðslu með aukinni nyt heldur einnig spara umtalsverðar fjárhæðir með betri og markvissari fóðrun sem tekur mið af þörfum gripanna.

Ef litið er til lengri tíma og þess hvernig auka má mjólkurframleiðslu til frambúðar og varanlega, þurfum við að skoða hlutina í víðara samhengi. Á undanförnum áratugum hefur kúabúum og kúm í landinu fækkað verulega og nú er svo komið að mjólkurkýr eru í reynd orðnar of fáar. Í dag er staðan sú að burðaraldur við 1. burð er að jafnaði nálægt 29,5 mánuðum. Þetta þýðir í reynd að við eigum inni hálfan árgang sem mætti láta bera fyrr en raunin er nú. Þannig mætti fjölga kúnum tímabundið og nýta þá auknu burðartíðni til þess að stækka stofninn varanlega. Til þess að svo megi verða þarf samstillt átak allra kúabænda í landinu.

Eitt af þeim atriðum sem horfa þarf til við aukningu mjólkurframleiðslu til lengri tíma er frjósemin en hún skiptir miklu máli varðandi afkomu búsins og það magn mjólkur sem framleidd er á hverju ári. Ef bil milli burða verður of langt þýðir það lengri geldstöðu, færri fædda kálfa á hverja kú á ári og minni mjólk. Það er því brýnt að vanda vel til verka við beiðslisgreiningu, sæðingu og fóðrun þannig að frjósemin sé sem allra best.

Víða er pottur brotinn í uppeldi kvígna og alltof oft sér maður smáar og lítt þroskaðar fyrsta kálfs kvígur sem í raun eru ekki tilbúnar til þess að takast á við það verkefni að vera orðnar mjólkurkýr. Oft er um að kenna of lítilli uppeldisaðstöðu og rangri fóðrun. Margir hafa því brugðið á það ráð að láta kvígurnar bera heldur eldri en ella og ná þannig stórum og vel þroskuðum gripum við fyrsta burð. Vandinn er hins vegar oftar en ekki sá að þá eru menn komnir með þrjá árganga í uppeldi í stað tveggja og þannig eykst vandinn fremur en hitt. Þrengsli í stíum verða mikil og það eru ekki ný vísindi að erfiðara er að fóðra gripi í þrengslum en þar sem rúmgott er. Í raun verður til nokkurs konar vítahringur þar sem kvígurnar verða eldri og eldri til þess að ná nægum þroska og jafnframt aukast þrengslin. Í þessu sambandi eru til tvær leiðir. Í fyrsta lagi að bæta við uppeldisaðstöðuna með tilheyrandi kostnaði og í öðru lagi að láta kvígurnar bera yngri. Það útheimtir hins vegar góða og markvissa fóðrun strax frá fæðingu.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins mun á næstunni hrinda af stað átaki í ráðgjöf til kúabænda með það að markmiði að auka framleiðslu mjólkur í landinu. Í fyrstu verður einkum horft til skemmri tíma og þess hverning við getum aukið framleiðsluna strax í vetur en í kjölfarið verður horft til lengri tíma og þess hvernig auka megi mjólkurframleiðslu varanlega.

/gj