Mælingar kynbótahrossa

Þegar hross koma til kynbótadóms eru þau mæld og eru skrokkmálin ellefu eins og sést á meðfylgjandi mynd. Tilgangur mælinganna er að fylgjast með þróun í stærð og hlutföllum íslenska hestsins. Þá eru þau höfð til hliðsjónar við mat á byggingu hrossa en mælingarnar gefa mynd af til dæmis framhæð hestsins, baklínu, fótahæð og formi lendar. Það er mikilvægt að vel sé að mælingum staðið og þær séu sambærilegar á milli sýninga. Þess vegna þurfa hver þau sem mæla hross að fá kennslu um mælipunkta og góða þjálfun í mælingum áður en byrjað er að starfa á sýningum. Öryggi mælinga eða áreiðanleika er hægt að meta með svokölluðu tvímælingagildi (0-100%) en það segir til um hversu mikil líkindi eru á milli endurtekinna mælinga á sama hrossi.
Síðastliðin sex sýningarár (2018-2023) hafa verið gerðar 8.130 mælingar á 4.203 hrossum á Íslandi, svo sum hrossin hafa verið mæld oftar en einu sinni á mismunandi sýningum. Í meðfylgjandi töflu má sjá meðaltal og breytileika skrokkmálanna yfir þetta tímabil og einnig tvímælingagildi hverrar mælingar. Það er talað um að tvímælingagildi sé hátt ef það er 70% eða hærra, og því hærra sem það er því líkari eru málin sem borin eru saman. Reyndin er sú með öll skrokkmál síðastliðin sex ár að tvímælingagildi þeirra er á bilinu 70% - 99% að undanskildu einu máli, sem er Breidd lærleggstoppa. Tvímælingagildi skrokkmálanna er því almennt mjög hátt. Eitt hæsta tvímælingagildið hefur málið Hæð á herðar eða 96%, sem segir að það er afar áreiðanleg mæling. Þá eru flest öll skrokkmálin með yfir 80% tvímælingargildi. Lægsta tvímælingagildið hefur málið Breidd um lærleggstoppa sem virðist vera það skrokkmál sem erfiðast er að mæla með samræmdum hætti. Þá er tvímælingagildi á málið Brjóstdýpt heldur lægra en á flestum öðrum skrokkmálunum og er það eitthvað sem vert er að skoða þó tvímælingagildi þess sé viðunandi.
Það eru dæmi um hross sem mælast töluvert mismunandi á milli sýninga enda er verið að mæla lifandi veru. Þá sjáum við einnig nokkurn breytileika á milli mælinga en hann er þó almennt fremur lítill eins og niðurstöðurnar sýna. Þar eru nokkrir þættir sem skipta eflaust máli, t.d. uppstilling hrossa og breyting á hrossinu sjálfu (það er til dæmis að stækka og eflast). Þessar niðurstöður sýna engu að síður að mælingafólk á Íslandi hefur verið og er almennt að mæla hross sem koma til kynbótasýninga á mjög samræmdan hátt.

Mynd sem sýnir mælipunkta í kynbótadómi – heiti þeirra kemur fram í töflunni.

Ýmsar frekari upplýsingar um kynbótasýningar of framkvæmd þeirra má finna hér á heimasíðu okkar undir Kynbótastarf - Kynbótasýningar.

/hh