Litagetraun: Svör og úrslit

Um síðustu helgi var RML með bás á handverks- og landbúnaðarsýningunni á Hrafnagili. Það var margt um manninn og þökkum við öllum þeim sem komu við hjá okkur í básinn. Við vorum þar með getraun þar sem skrifa átti niður litanöfn þriggja dýra sem voru á myndum í básnum. Myndirnar fylgja hérna með. Það sköpuðust fjörugar umræður og margir þátttakendur bentu réttilega á að einhver munur sé á skilgreiningum lita eftir landshlutum. Það er því þannig að fleiri en eitt svar getur verið rétt við hvern lit og ekkert endilega víst að þetta sé alveg tæmandi listi.

Mynd 1. Þar var leitað eftir litnum á folaldinu. Það er slettuskjótt, nánar tiltekið brún-slettuskjótt. Þennan lit má einnig nefna hjálmskjótt (brún-hjálmskjótt). Mjög margir giskuðu á að folaldið væri skjótt en þannig er að folald getur aldrei orðið skjótt nema amk. annað foreldri þess sé skjótt. Móðir þessa folalds er á myndinni og eftir frekari athuganir komumst við að því að faðir þess er alls ekki skjóttur svo það er alveg örugglega slettuskótt en ekki bara skjótt.
 
Mynd 2. Þar er sægrá kýr. Sægráar kýr eru aðeins öðruvísi á litinn en gráar kýr og því eru þær líka stundum kallaðar mósóttar eða jafnvel bláar. Ef vel er að gáð sést að hún er einnig leistótt og jafnvel smá huppótt.
 
Mynd 3. Lambið er með flókinn lit og kannski erfiðast að greina. Því tökum við mörg svör gild sem rétt. Í grunninn er það svartflekkótt, en nákvæmara litanafn er kjömmubíldótt - flikrótt. Hinsvegar eru málvenjur mismunandi eftir landshlutum og á mörgum stöðum er þetta einfaldlega kallað svarthöttótt, eða jafnvel svarthöttótt-krúnótt. Við höfum því ákveðið að taka öll þessi svör gild sem rétt.

 

Það voru mjög margir sem tóku þátt í getrauninni eða alls 168 svör og þar af var nýkjörin forseti Íslands. Alls voru 19 sem svöruðu öllum þrem myndunum rétt innan þessara skilgreininga sem hér að ofan eru gefnar. Dregið var úr réttum svörum og var það Hafdís B. Ó. sem vann og fær hún send litaspjöld af íslensku húsdýrunum í verðlaun.

Við þökkum öllum sem tóku þátt fyrir, það var gaman að hitta ykkur og ræða litina á íslensku dýrunum við ykkur.

boo/gj