Líflambasala og arfgerðir – er búið að sækja um kaupaleyfi?

Nauðsynlegur liður í því að byggja upp þol í sauðfjárstofninum gegn riðuveiki er að koma sér upp ásetningshrútum sem bera verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir.

Margir bændur eru þegar komnir á fulla ferð í að innleiða verndandi arfgerðir sem sýnir sig m.a. í því að mjög góð þátttaka var í sæðingum síðastliðinn vetur og þá hafa bændur verið mjög duglegir við að taka sýni úr lömbum í vor en þegar hafa verði greind rúmlega 35 þúsund sýni og um 20 þúsund sýni eru í vinnslu.

Ef bændur hafa huga á kaup eða sölu lamba á milli bæja er að ýmsu að huga. Hér verður farið yfir nokkur mikilvæg atrið í því sambandi:

  • Matvælastofnun (MAST) sér um leyfisveitingar vegna flutnings gripa milli búa.
  • Allir flutningar á lömbum yfir varnalínur eru leyfisskyldir. Flutningar innan hólfs eru einnig leyfisskyldir í öllum hólfum sem teljast sem riðuhólf (riða greinst í hólfinu sl. 20 ár). Einu flutningarnir sem ekki eru leyfisskyldir eru flutningar á lömbum milli búa innan ósýktra hólfa og söluhólfa.
  • Bæði þeir sem hyggjast selja líflömb og þeir sem ætla sér að kaup, þurfa að sækja árlega um leyfi til MAST.
  • Umsóknarfrestur um kaup á líflömbum var til 1. júlí en hefur nú verið framlengdur til 20. ágúst. Sótt er um í gegnum eyðublöð sem finna má inn í þjónustugátt á heimasíðu MAST (www.mast.is). Um er að ræða tvö eyðublöð vegna kaupa, annarsvegar eyðublað nr. 2.09 ef flytja á lömb frá sölusvæðum og hinsvegar eyðublað nr. 2.45 ef sækja á um leyfi á flutningi lamba með V eða MV arfgerðir úr öðrum varnarhólfum en söluhólfunum.
  • Á heimasíðu MAST má finna lista yfir bú sem þegar hafa fengið söluleyfi.

Hvað má selja – hvað má kaupa?
MAST gaf út á heimasíðu sinni í apríl verklagsreglur fyrir flutning á lömbum með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir. Hér er úrdráttur úr reglum sem birtar eru á heimasíðu MAST:

  1. Líflambasölusvæði. Frá líflambasölusvæðum má flytja (leyfisskylt) yfir varnarlínur lömb af öllum arfgerðum nema þau sem bera VRQ (áhættuarfgerð). Ekki er þörf á leyfi vegna flutnings lamba innan þessara hólfa.
  2. Ósýkt hólf (riða ekki greinst í hólfinu í meira en 20 ár). Ekki er þörf á leyfi fyrir flutningi lamba milli bæja innan hólfsins en þó má ekki flytja milli bæja lömb sem bera VRQ samsætuna. Frá þessum hólfum er hægt að fá leyfi til að flytja lömb inn í riðuhólf (hólf þar sem riða hefur greinst sl. 20 ár og er hér fjallað um í lið 3 og 4). Flutningur inn í riðuhólfin tekur til lamba sem hafa arfgerðirnar: ARR/x, T137/x, AHQ/AHQ, AHQ/C151 eða C151/C151(x má ekki vera VRQ) .
  3. Riðuhólf/sýkt hólf þar sem riða hefur ekki greinst sl. 7 ár (þ.e.a.s. að 7 til 20 ár eru frá síðasta riðutilfelli). Frá búum sem tilheyra þessum hólfum er hægt að fá leyfi til að flytja lömb af ákveðnum arfgerðum milli bæja eða yfir varnarlínur inn í önnur riðuhólf. Heimilt er að flytja lömb sem bera ARR/x, T137/x eða AHQ/AHQ, AHQ/C151 eða C151/C151 (x má ekki vera VRQ).
  4. Riðuhólf/áhættuhólf – þar sem riða hefur greinst á sl. 7 árum. Reglur fyrir flutningi lamba í þessum hólfum eru mismunandi eftir því hvort bæir eru skilgreindir samkvæmt MAST sem áhættubæir m.t.t. riðuveiki eða hvort þeir séu skilgreindir sem „aðrir bæir í riðuhólfi“.
    • Aðrir bæir í áhættuhólfi: Get selt (háð leyfi) innan hólfs milli bæja lömb sem bera arfgerðirnar ARR/x, T137/T137, T137/C151, T137/AHQ, C151/C151, C151/AHQ, AHQ/AHQ. Hægt er að sækja um undanþágu til sölu á lömbum með T137/x.
    • Áhættubæir: Geta selt (háð leyfi) til annarra búa sem eru skilgreind sem áhættubú í sama varnarhólfi. Það eru lömb bera V/V, V/MV eða MV/MV (sem er þá ARR/ARR, ARR/T137, ARR/C151, ARR/AHQ, T137/T137, T137/C151, T137/AHQ, C151/C151, C151/AHQ, AHQ/AHQ).

Nánar um reglur um flutning lamba og skilgreiningar á varnarhólfum er að finna á heimasíðu MAST.

Þó megináherslan á riðusvæðum sé að velja fyrir verndandi genasamsætum þá eru bændur hvattir til að nýta sér einnig kosti þess að nota mögulega verndandi arfgerðir sem getur veitt svigrúm til þess að auka erfðafjölbreytileikann og viðhalda þeim breytileikum sem mögulega eru verndandi. Samkvæmt landsáætluninni þá er markmiðið fyrir árið 2024 að á öllum búum sem skilgreind verða sem áhættubú sé a.m.k. 50% hrúta sem settir verða á í haust sem bera ARR/x og á öðrum búum í áhættuhólfum er markmiðið að á hverju bú sé a.m.k. 25% hrúta sem settir verða á sem beri ARR/x. Vissulega væri það kostur ef þessir hrútar væru arfhreinir fyrir ARR eða hefðu T137, C151 eða AHQ á móti ARR. Fyrir önnur svæði hefst markmiðasetingin árið 2025 en að sjálfsögðu eru allir hvattir til að hefja markvissa ræktun fyrir V og MV arfgerðum sem fyrst. Markmiðin gefa svigrúm til að nýta mögulegaverndandi arfgerðir einnig, en mismikið eftir sjúkdómastöðu bæja/hólfa.

Nánar um markmiðin má lesa í landsáæltuninni en hana má nálgast í gegnum tengil hér neðar og verður fjallað betur um innihald hennar síðar.

Til upprifjunar:

  • Verndandi (V) genasamæta er í dag einungis ARR, dökkgrænt flagg í Fjárvís.
  • Mögulega verndandi (MV) genasamsætur eru T137, C151 og AHQ, ljósgrænt flagg í Fjárvís.
  • Lítið næmar genasamsætur er N138, blátt flagg í Fjárvís.
  • Villigerðin (næm genasamsæta, áður nefnd hlutlaus) er ARQ, gult flagg í Fjárvís.
  • Áhættuarfgerð teljast allar arfgerðir sem inni halda VRQ, og er VRQ genasamsætan flögguð með rauðu í Fjárvís.

Sjá nánar: 
Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu

/okg