Lagt til að greiðslumark mjólkur verði aukið um 7 milljónir lítra

Sunna 218, mm. Þrasa 98052
Sunna 218, mm. Þrasa 98052

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa gert um það tillögu til landbúnaðarráðherra að greiðslumark 2014 verði 123 milljónir lítra sem er aukning um 7 milljónir lítra frá greiðslumarki þessa árs.
Gert er ráð fyrir að á tveggja ára tímabili frá 2012-2014 verði um 7,7 milljóna lítra aukning í mjólkursölu innanlands. Í fréttatilkynningu segir að þetta sé einsdæmi. Söluaukninguna má einkum rekja til fitumeiri afurða.

"Innanlandssalan á þessu ári verður fyrirsjáanlega meiri en nemur upphaflega greiðslumarkinu eða kvótanum og þegar hefur verið ákveðið að kaupa 3 milljónir lítra mjólkur umfram greiðslumark á fullu afurðastöðvaverði á þessu ári. Spáð er áframhaldandi aukningu vegna sterkrar eftirspurnar.
Það er fyrst og fremst aukin sala fitumeiri afurða á borð við smjör, ost, nýmjólk og ýmsar aðrar vörutegundir sem knýr þessa söluaukningu. Salan var liðlega 115 milljónir lítra árið 2012, en gert er ráð fyrir að hún verði 123 milljónir lítra árið 2014. Það er 7,7 milljóna lítra aukning á tveimur árum. Bændur hafa verið hvattir til að auka framleiðsluna þegar á síðustu vikum þessa árs og búa sig undir enn aukna sölu á því næsta.
Kúabændur eru afar þakklátir íslenskum neytendum fyrir það traust sem vörur þeirra njóta á markaði. Mikið hefur verið lagt upp úr hagræðingu í mjólkurvinnslunni til að hægt sé að halda verði á mjólkurafurðum í skefjum. Það á þátt í þeirri söluaukningu sem sést á undanförnum misserum auk vöruþróunar og nýrra viðhorfa á markaði,“ segir í fréttatilkynningu frá Mjólkursamsölunni.

Sú aukning á greiðslumarki sem mjólkuriðnaðurinn hefur lagt til á næstu tveimur árum samsvarar framleiðslu sem næst 40 meðalkúabúa.

/gj