Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Í undirbúningi að erindi sem undirritaður hélt á fræðslufundi Félags kúabænda á Suðurlandi og Ráðgjafarmiðstöðvar landabúnaðarins þann 17. nóvember sl. um rekstur og fjármögnun á kúabúum, var meðal annars skoðað hvort áhrif stýrivaxtalækkunar Seðlabankans væru komin fram í vaxtatöflum helstu viðskiptabankanna. Þann 5. nóvember kynnti Seðlabanki Íslands lækkun á stýrivöxtum bankans um 0,25 prósentustig. Fram að þessari breytingu höfðu stýrivextir Seðlabankans verið óbreyttir í tvö ár. Ætla mætti að þessi breyting stýrivaxtanna kæmi strax fram í breytingum á vöxtum viðskiptabankanna til viðskiptavina sinna, m.t.t. til óverðtryggðra vaxta á bæði inn- og útlánum. Við skoðun á vaxtatöflum þriggja stærstu viðskiptabankanna, Landsbankans, Arion og Íslandsbanka, þá virðast áhrif lækkunar stýrivaxtanna koma tiltölulega lítið fram enn sem komið er. Lítum nánar á málið.
Samkvæmt vaxtatöflu Arion dags. 11. nóv. sl. þá munu óverðtryggðir kjörvextir útlána lækka um 0,2%, meðan vextir á bæði óbundnum og bundnum innlánsreikningum lækka um 0,3% !!
Í vaxtatöflu Landsbankans dags. 11. nóv. sl. kemur fram að útlánsvextir óverðtryggðra skuldabréfa lækka um 0,15 prósentustig að jafnaði, lægstu kjör íbúðalána þó um 0,25 prósentur en yfirdráttarlán einungis um 0,1%. Hins vegar lækka grunnvextir óverðtryggðra innlánsreikninga sem eru bundnir til dæmis í þrjá mánuði eða lengri tíma um 0,25% !!
Engar breytingar er að sjá á vöxtum Íslandsbanka enn sem komið er, í kjölfar ákvörðunar Seðlabankans um lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentustig.
Eins og áður segir mætti ætla að áhrif breytinga á stýrivöxtum Seðlabankans kæmu fyrst og fremst fram á óverðtryggðum kjörum inn- og útlána viskiptabankanna. Slíkt virðist ekki gerast nema að mjög takmörkuðu leyti enn sem komið er. Þó er Arionbanki með enn meiri lækkun á innlánsvöxtum eða 0,3 prósentustig en lækkar útlánsvexti um einungis um 0,2%.
Athygli vekur líka sá munur (vaxtamunur) sem er á vöxtum á óverðtryggðum almennum innlánum og grunnvöxtum óverðtryggðra skuldabréfalána viðskiptabankanna, meðan grunninnlánsvextir eru frá 0,6 til 0,95% eru lægstu vaxtatölur óverðtryggðra skuldabréfalána (án álags) frá 6,55 til 7,25% !
Á sama tíma er verðbólgan metin af Hagstofu Íslands 1,9% á ársgrunni.
Greinilegt er að vaxtamunur á inn- og útlánum er geysimikill miðað við núverandi verðbólgustig.
Oft hefur verið rætt um að áhrif verðbreytinga á hrávörum erlendis, eins og til dæmis olíum komi seint og illa fram hér á landi þegar um lækkanir er að ræða en olíufélögin séu fljót að hækka útsöluverðið ef verð hækki erlendis. Svo virðist að viðskiptabankarnir taki jafnvel olíufélögunum fram að þessu leyti með því að hundsa að hluta ákvarðanir Seðlabankans um stýrivaxtalækkun. Á meðan birta þessir sömu viðskiptabankar afkomutölur sínar þar sem fram kemur að þeir hafi hagnast um milljarðatugi á fyrstu 9 mánuðum ársins.
Runólfur Sigursveinsson
rs/gj