Kynbótasýningar - til upprifjunar fyrir reiðdóminn

Nú eru vorsýningar fram undan og Landsmót í Reykjavík. Vorið er ávallt tilhlökkunarefni og mikil þátttaka er í þeim kynbótasýningum sem framundan eru sem er afar ánægjulegt. Hrossarækt og kynbótasýningar eru í eðli sínu samstarfsverkefni á milli ræktenda, sýnenda og starfsfólks kynbótasýninga þar sem ætlunin er að lýsa hverjum grip af kostgæfni og skapa verðmætar upplýsingar fyrir ræktunarstarfið. Ég ætla í nokkrum pistlum hér á síðunni að fara í gegnum atriði sem gott er að hafa í huga áður en sýningarnar byrja. Þessi verður um framkvæmd reiðdómsins.Það eru engar breytingar í ár hvað varðar framkvæmd kynbótadómsins.

Hérna koma punktar hvað reiðdóminn varðar sem gott er að hafa í huga:

Tölt:
Töltið er dæmt á öllum þeim hraðastigum sem hesturinn býr yfir, þ.e. á hægri ferð, milliferð og greiðri ferð.
 - Til að hljóta einkunn 9,0 eða hærra fyrir tölt þarf að sýna hestinn á slökum taum til að sýna fram á að hann sé sjálfberandi og í góðu jafnvægi. Nóg er að sýna þetta einungis í stutta stund en talað er um að hesturinn haldi jafnvægi fyrstu sekúndurnar eftir að greinilega losað er um tauminn.
 - Til að hljóta einkunn 9,0 eða hærra þarf einnig að sýna hraðaaukningu á tölti eða niðurhægingu til að sýna fram á jafnvægi og taktöryggi á tölti.
Hægt tölt:
 - Fyrir hæstu einkunnir (9,0 til 10), þarf hesturinn að geta gengið upp í jafnvægisgott hægt tölt af feti.
 - 8,0 er hámarkseinkunn ef hraði og/eða skreftíðni á hægu tölti er í efstu mörkum.
Brokk:
 - Fyrir einkunnir 9,0 eða hærra fyrir brokk þarf að sýna hestinn á tveimur hraðastigum á brokki. Annaðhvort frá hægri ferð að rúmri milliferð eða frá hægri milliferð að greiðri ferð.
Skeið:
 - Til að hljóta einkunnir 8,5 og hærra þarf að hleypa hestinum greinilega til skeiðs.
 - Þá er talað um að einkunn fyrir skeið skulu lækkuð um 0,5 hið minnsta séu miklir erfiðleikar í upphafi spretts, hesturinn þurfi mikla hjálp frá knapa til að halda jafnvægi á sprettinum eða ef hesturinn styttir sig í niðurhægingu.
Samstarfsvilji:
 - Fyrir einkunnir 9,0 eða hærra skal það sýnt að hægt sé að hægja hrossið niður á fet í viðsnúningum á brautarendum. Hraðabreytingar á gangtegundum, losað um taum og annað sem sýnir þjálni og samstarfsvilja getur vegið til hækkunar á einkunn sé það vel framkvæmt af hestinum.
Yfirlitssýningar:
Hægt og greitt tölt á yfirlitssýningum.
- Ef ná á einkunn 8,5 eða hærra fyrir tölt verður að sýna bæði hæga og greiða ferð á gangtegundinni á yfirlitssýningum.
 - Einkunnir fyrir samstarfsvilja er bæði hægt að hækka og lækka á yfirlitssýningum. Hvað varðar lækkun á einkunn fyrir samstarfsvilja er dómurum það leyfilegt ef hesturinn sýnir neikvæð atriði þessa eiginleika sem ekki komu fram í dómnum, t.d. augljós merki um óþjálni, ofríki, spennu eða viðkvæmni.
 - Til að hljóta hækkun fyrir samstarfsvilja á yfirlitssýningu þarf að sýna greinilega fram á að hægt sé að hægja hrossið mjúkt og átakalaust niður innan afmörkunar brautarinnar.
 - Til að hækka einkunn fyrir skeið á yfirlitssýningu verður að sýna hrossið einnig á tölti, þar sem horft er til þess að gæði töltsins séu svipuð og í dómi. Ef svo er ekki, þá verður einkunn fyrir skeið að vera að lágmarki 0,5 stigum lægri en sýning þess á yfirlitssýningunni býður upp á.
 - Hross, sex vetra og eldri, sem hljóta 5,0 fyrir skeið í dómi verða að skeiða upp á að lágmarki 6,5 til að hreyfa einkunn.
 - Til að hækka einkunn fyrir fegurð í reið verður að sýna hrossið að lágmarki bæði á tölti og brokki. Það fer svo eftir frammistöðu í dómnum hvort einnig þurfi að sýna hægt/greitt stökk og skeið. Einkunn fyrir fegurð í reið á að endurspegla frammistöðu hrossins í gegnum alla sýninguna (dóm og yfirlitssýningu) á öllum gangtegundum.

Til frekari glöggvunar er hægt að nálgast vinnureglur FEIF við kynbótadóma hér: Vinnureglur

Þá er hægt að skoða myndband sem sýnir hvað kröfur eru gerðar til hæstu einkunna í reiðdómi hérna á síðu RML:Myndband - kröfur til einkanna í reiðdómi

Við hjá RML hlökkum til samstarfsins við hestamenn í ár sem endranær og minnum á að við erum til þjónustu reiðubúin.
Bestu kveðjur í bili.

 

/hh