Kynbótahross á LM 2016

Hvað varðar kynbótahross á Landsmóti 2016 að Hólum í Hjaltadal eru nokkur atriði sem þarf að koma á framfæri. Ákveðinn fjöldi efstu hrossa vinnur sér þátttökurétt á mótinu og miðað er við að hafa 165 kynbótahross á mótinu. Til að auðvelda bestu klárhrossum landsins að komast inn á mótið er 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið. Á heimasíðunni www. worldfengur.com má finna lista yfir þau kynbótahross sem búin eru að vinna sér þátttökurétt á Landsmót hverju sinni. Endanlegur listi lítur ekki dagsins ljós fyrr en eftir 10. júní þegar vordómum lýkur. Ekki þarf að skrá sig inn í WorldFeng til að sjá þennan lista heldur má opna hann með því að smella á „Sýningarskrá fyrir Landsmót 2016“.

Fjöldann í hverjum flokki má sjá í töflu hér að neðan:

Flokkur Fjöldi
7v. og eldri hryssur: 15
6v. hryssur: 30
5v. hryssur: 35
4v. hryssur: 20
4v. hestar: 15
5v. hestar: 20
6v. hestar: 20
7v. og eldri hestar: 10
Samtals: 165

 

Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið (til dæmis fleiri en ein hryssa í 15. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna) þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eins eru eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita í síðasta lagi fyrir 12. júní, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu. Hægt er að láta vita í síma 892-9690 eða á netfanginu thk@rml.is.

Úrvalssýning kynbótahrossa
Á laugardeginum á Landsmóti verður úrvalssýning kynbótahrossa þar sem hugmyndin er að virða fyrir sér bestu hross landsins fyrir ákveðna eiginleika og kynna fjölhæfni og fegurð hestsins. Á þessa sýningu mega koma hross með 9.5 - 10 fyrir tölt, brokk, stökk, skeið og fegurð í reið. Þessi sýning er opin þeim hrossum sem búa yfir þessum einkunnum og voru sýnd í vor, óháð því hvort þau vinna sér þátttökurétt á Landsmóti sem einstaklingar eða ekki. Nánari upplýsingar um þetta sýningaratriði verða birtar innan tíðar. 

thk/gj