Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Teknar hafa verið saman nokkrar niðurstöður úr jarðvegssýnum frá árunum 2014-2019 að báðum árum meðtöldum. Samtals er um að ræða efnagreiningar á 1.320 sýnum sem öll eru tekin með 10 cm sýnatökudýpt.
Í meðfylgjandi töflum eru niðurstöðurnar flokkaðar eftir árum og landshlutum. Niðurstöður af Vestfjörðum fylgja Vesturlandi. Fjöldi sýna er ekki mikill og þyrftu margir bændur að hafa meiri reglu á sýnatöku.
Greina má mun milli landshluta hvað varðar einstök næringarefni. Það er þó rétt að fara varlega í að túlka þann mun því myndirnar með dreifingu mælinga á fosfór, kalí og sýrustigi jarðvegs sýna mikinn breytileika innan hvers landshluta.
Meðaltals gildi fyrir fosfór, kalí, kalsíum, magnesíum og natríum eru öll lægst úr sýnum af Suðurlandi. Fosfór og natríum mælist hæst í sýnum af Vesturlandi en kalsíum og magnesíum í sýnum af Norðurlandi. Sýrustig jarðvegs (pH-gildi) er að meðaltali 5,4 í öllum þessum sýnum. Á Vesturlandi mælist það lægst pH=5,2 en er að jafnaði pH=5,5 í öllum hinum landshlutunum.
Mæligildi einstakra efna sýna mikla dreifingu. Hér er myndrænt sýnd dreifing á fosfór (P) og kalí (K). Þá má einnig sjá dreifingu mælinga á sýrustigi. Á myndunum sýnir hver punktur eina mælingu. Gráa svæðið táknar það sem ætla má miðlungsgildi fyrir viðkomandi næringarefni í jarðveg. Fyrir sýrustig þekur gráa svæðið æskilegt pH-gildi til að nýting næringarefna fyrir plöntur verði nokkuð góð eða góð. Niðurstöðum er raðað á myndirnar eftir landnúmerum frá vinstri til hægri. Niðurstöður af Vesturlandi eru því lengst til vinstri en af Suðurlandi lengst til hægri. Á myndunum má greina mismun innan landshluta sem kann að vera vegna jarðvegsgerðar, staðsetningar t.a.m. fjarlægðar frá sjó og fleiri þátta.
Frá því farið var að taka jarðvegssýni í 10 cm dýpt hefur rúmþyngd jarðvegs í hverju sýni verið mæld. Þá niðurstöðu má m.a. nota til að reikna magn auðleystra næringarefna sem kg/ha í efstu 10 cm jarðvegsins.
Eins og áður er nefnt sýnir þessi samantekt að lítið er tekið af jarðvegssýnum. Jarðvegssýni gefa þó mikilvægar upplýsingar um ástand jarðvegsins s.s. sýrustig og aðgengilegt magn helstu næringarefna. Með reglulegri sýnatöku má fylgjast með því hvernig innihald jarðvegs af þessum efnum breytist á nokkurra ára millibili. Æskilegt er að taka jarðvegssýni í þessum tilgangi á 5-7 ára fresti.
Tún koma misvel undan vetri og geta verið á því ýmsar skýringar. Víða liggur fyrir hvaða spildur þurfi að taka til endurræktar á næstunni. Það gæti verið ráð að panta fyrir haustið jarðvegssýnatöku úr þeim spildum sem þarfnast úrbóta.
Hægt er að hafa samband við ráðunaut RML í síma 516-5000 ef óskað er eftir jarðvegssýnatöku og/eða túlkun jarðvegssýnaniðurstaðna þegar þær liggja fyrir.
Sjá nánar:
Jarðvegssýnaniðurstöður 2014-2019
el/als/okg