Jarðvegssýnataka í fullum gangi

Þessa dagana eru ráðunautar víðs vegar um landið að taka jarðvegssýni hjá bændum. Samhliða því styðja ráðunautarnir við námsverkefni Sigurðar Max Jónssonar frá Glúmsstöðum 1 í Fljótsdal. Hann er í mastersnámi í búvísindum við LbhÍ með áherslu á áburðar- og plöntunæringarfræði. Verkefnið sem Sigurður vinnur að snýst um að bera saman mismunandi sýnatökudýpt og að prófa mismunandi skolaðferðir. Þá á einnig að skoða niðurstöður eldri jarðvegsefnagreininga og meta hvort munur sé á milli landsvæða og hvort eitthvað hafi breyst í tímans rás.

Eins og áður hefur komið fram er verið að breyta sýnatökudýpt úr 5 cm yfir í 10 cm. Ástæðan fyrir því er sú að talið er að þær niðurstöður sýni betur næringarástand jarðvegssins en rótarlag grasa nær mun dýpra en 5 cm.

Á myndinni má sjá Sigurð Max þegar hann var ásamt Borgari Páli við jarðvegssýnatöku í Reykhólasveit nú fyrir stuttu. Hann heldur á tveimur jarðvegssýnaborum, annars vegar til að taka sýni úr efstu 5 cm jarðvegsins og hins vegar bor sem nær 10 cm niður í svörðinn. 

bpb/okg