Í ljósi umræðu um aðgengismál að skýrsluhaldsforritum

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) tók yfir allri umsjón skýrsluhaldsforrita Bændasamtakanna um áramótin 2019-2020 með sameiningu RML og tölvudeildar Bændasamtakanna. RML var falið að tryggja öryggi og viðgang gagna innan skýrsluhaldskerfanna. RML tók yfir ýmsum skuldbindingum og samningum tölvudeildar, þar með talið starfsreglum varðandi aðgengi að forritum Bændasamtakanna.

Við sameininguna var mjög vel farið yfir aðgengismál þeirra sem höfðu meiri aðgang að forritunum en almennt gerist meðal bænda. Með hertari löggjöf varðandi persónuvernd voru þessi mál einnig tekin til endurskoðunar innan RML. Á vef RML má sjá vísan í persónuverndarstefnu fyrirtækisins en þar er því lýst yfir að meðferð gagna og geymsla þeirra sé gert með þeim hætti að; RML vistar og vinnur eingöngu með þau gögn sem nauðsynleg eru starfsemi sinnar vegna og heimilt er að vinna með samkvæmt lögum, samningum við aðila eða upplýstu samþykkti einstaklinga og annarra þeirra sem að verkefnum koma. RML hefur tryggt vörslu og vinnslu allra gagna á þann veg að þau séu varin með tryggum hætti. Einungis þeir sem hafa til þess skilgreindar heimildir fá aðgang að viðeigandi gögnum. Þeir geta unnið með gögnin, uppfært, eða breytt. Óviðkomandi geta ekki skoðað gögnin.

Almennt er miðað við að enginn hafi svokallaðan ráðunautaaðgang eða umsjónaraðgang aðrir en þeir sem vinna hjá RML og þurfa vinnu sinnar vegna að hafa þennan aðgang. Aðrir aðilar svo sem ákveðnir starfsmenn Mast og búnaðarsambanda hafa einnig víðtækari aðgang en einstaka bóndi en það er alltaf vegna starfa þeirra fyrir bændur.

Ef veittur hefur verið aðgangur að skýrsluhaldskerfunum þar sem um er að ræða meiri aðgang heldur en fyrir einstaka bú og viðkomandi er ekki í þannig vinnu fyrir bændur að nauðsynlegt sé að hafa meiri aðgang þá eru ástæður þess skoðaðar í hvert skipti. En meginreglan er sú að ekki er veittur aðgangur nema um rannsóknarverkefni sé að ræða og þá er yfirleitt um ákveðnar gagnaúttektir að ræða sem þjóna verkefninu og önnur gögn ekki birt.

Það er meginstefna að gögn eru ekki afhent þeim sem ekki með sannarlegum hætti þurfa að nota þau. Aðgengi hvort sem það er les eða skrifaðgengi að öllum gögnum bænda verður ekki afhent öðrum en þeim sem sannarlega þurfa að nota þau vinnu sinnar vegna.

Sjá nánar: 
Persónuverndarstefna RML

/okg