Hvert er áburðargildið í þínum búfjáráburði?

Mykjupoki
Mykjupoki

Óþarfi er að fjölyrða við bændur um mikilvægi þess að nýta búfjáráburðinn sem best en lykillinn að því er að þekkja vel efnainnihald hans. Í áburðaráætlanagerð styðjumst við yfirleitt við meðaltalstölur byggðar á rannsóknum en staðreyndin er sú að mikill munur getur verið á efnainnihaldi búfjáráburðar á milli búa og getur meðaltalið því gefið villandi niðurstöðu. Þá geta niðurstöðurnar gefið til kynna að ástæða sé til að kanna betur næringarefnabúskap á viðkomandi jörð.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur nú samið um efnagreiningar á búfjáráburði fyrir bændur. RML mun koma sýnunum í efnagreiningu, túlka niðurstöðurnar ásamt því að skrá þær í Jörð.is.

Þurr búfjáráburður er mjög erfiður til sýnatöku vegna misleitni og þess vegna mælum við frekar með að sýnin verði tekin úr upphræðrum skít. Sýnatakan sjálf verður í höndum bænda, enda mikilvægt að hún eigi sér stað um leið og mykjunni er dælt á völl. Eðli málsins samkvæmt verða niðurstöður greininganna ekki klárar fyrr en eftir að búið er að dreifa mykjunni og nýtast því ekki nema að takmörkuðu leyti í vor. Þó má endurmeta notkun tilbúins áburðar í ljósi niðurstaðnanna. Það verður ekki fyrr en við áburðaráætlun næsta árs og ára, sem niðurstöðurnar nýtast að fullu en líklegt er að ef samsetning bústofns og afurðir breytast lítið, þá breytist efnainnihald búfjáráburðarins ekki heldur mikið.

Mikilvægt er að sýnið sé sem bestur þverskurður af mykjunni/skítnum. Þekkt er að þrátt fyrir að búið sé að hræra vel í mykjunni er tilhneigingin sú að seinasta mykjan verði þéttari en sú sem fyrst kemur. Þess vegna mælum við með sýnatakan verði með eftirfarandi hætti:
Taka skal sýni 5 sinnum meðan á útdælingu stendur, 5 lítra hverju sinni. Þó ekki úr því allra fyrsta því brunnarnir geta verið fullir af vatni. Taka þarf sýnin með sem jöfnustu bili og seinasta sýnið úr seinustu tankfylli.
Þessum sýnum er síðan hellt saman í kerald og þegar allt er komið er hrært vel og endanlegt sýni tekið í litla fötu eða brúsa, lokað vel og sýnið merkt. Passlegt er að sýnið sé 2 lítrar.

Verð fyrir þessa þjónustu eru krónur 18.000 + vsk fyrir hvert sýni.

Ráðunautar RML munu taka við sýnunum á öllum starfsstöðvum en einnig má senda sýnin beint á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Hvanneyrargötu 3, 311 Borgarnes. Sýnin þurfa að vera komin til ráðunauta RML eigi síðar en 20. apríl.

bpb/okg