Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Útflutningur á heyi nam á síðasta ári tæpum 1.708 tonnum sem er 364 tonnum eða 27% meira en árið 2011. Til samanburðar nam útflutningur á heyi um 306 tonnum árið 2006 og hefur heyútflutningur því tæplega sexfaldast á sjö árum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í fyrra fóru 95% af útfluttu heyi til Færeyja eða 1.623 tonn, 59 tonn voru flutt til Hollands, 12 tonn til Frakklands og 14 tonn til Belgíu. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun voru 103 tonn flutt til Danmerkur, en engar upplýsingar um það fundust hjá Hagstofunni. Líklegasta skýringin er talin vera sú að heyið hafi farið í gegnum Færeyjar til Danmerkur og komi því fram í gögnum um útflutt hey þangað.
Sem fyrr er mestur heyútflutningur frá Litlu-Tungu í Holtum, frá Vilhjálmi Þórarinssyni og fjölskyldu. Hann mun vera með um 50% hlutdeild í útflutningi. Toppgras ehf. er næststærsti útflytjandi með um 30% hlutdeild og Eiríkur Blöndal á Jaðri í Borgarfirði er með um 15% hlutdeild. Um 5% koma frá heyútflytjendum á Austurlandi sem flytja hey með Norrænu til Færeyja.
Heildarverðmæti útflutnings árið 2012 nam 58,5 milljónum kr. en 42,8 milljónum árið 2011 kr. Meðalverð í fyrra var 34,2 kr/kg en árið áður var meðalverðið 31,9 kr/kg og 25,9 kr./kg árið 2010. Hækkunin á milli ára nemur 7,2% en frá árinu 2010 hefur verðið hækkað um 32%.
Á sama tíma hefur verð á aðföngum til heyöflunar, þar á meðal á áburði, hráolíu og rúlluplasti, einnig hækkað.
"Þetta er svona hægt og bítandi að aukast," segir Hafsteinn Jónsson hjá Toppgrasi ehf í samtali við Morgunblaðið. Hann segir verðið vera viðunandi og að verðhækkunin skýrist að mestu af síauknum framleiðslukostnaði. Toppgras seldi hey til Frakklands, auk Færeyja.
Hafsteinn segir að áform hafi verið um að flytja hey á Noregsmarkað en tollmúrar séu óhagfelldir þar. Þá hafi þeir ekki komist yfir að heyja meira en búið var að lofa síðasta sumar.
Vilhjálmur Þórarinsson segir þá hafa aukið við útflutninginn að einhverju marki en hann seldi hey í fyrra til Færeyja, Belgíu og Hollands. Vilhjálmur reiknar með að allt hey sem hann eigi til útflutnings fari út fyrir vorið. Aðrir heysalar seldu allt sitt hey á Færeyjamarkað.
Hækkanir halda áfram í ár
Í janúar á þessu ári voru 149,4 tonn send úr landi til fjögurra landa að verðmæti 6,2 milljónir kr. Meðalverðið var 41,4 kr/kg sem er um 14% hærra verð en meðalverð í desember 2012. Ef skoðaður er munur á meðalverði í janúar 2012 og í sama mánuði árið 2013 má sjá hækkun upp á 39,8% á þessum 13 mánuðum. Verðið er nokkuð rokkandi. Þannig var lægsta meðalverðið 29 kr/kg í ágúst en hæsta meðalverðið 41,3 kr/kg í nóvember.
Heimild: Morgunblaðið 12. mars 2013, Ingvar P. Guðbjörnsson (ipg@mbl.is)
rml/gj