Heysýnataka

Nú fer vonandi að styttast í slátt hjá bændum. Heyefnagreiningar eru gífurlega mikilvæg bústjórnartæki og má einfalda sér heysýnatökuna með að skipuleggja hana samhliða vinnu við heyskap. Þannig má taka til hliðar rúllur sem á að taka sýni úr svo ekki þurfi að leita að þeim í rúllustæðunni þegar sýnatakan fer fram, með tilheyrandi klifri um rúllustæðuna sem m.a skapar hættu á að gata rúllurnar. Gæta þarf þess að þær rúllur sem sýni eru tekin úr endurspegli vel heyforðann sem gefa á í vetur. Miða má við að taka safnsýni úr túnum í svipaðri ræktun og sláttutíma. Ef ræktað er nokkuð af grænfóðri er gott að taka sýni úr því og einnig hánni því hún getur verið drjúgur partur af fóðri vetrarins og er mjög oft ólík fyrri slætti.

Nú hefur veðráttan í vor verið heldur kuldaleg og haft töluverð áhrif á vöxt túngrasa. Framan af maí var víðast hvar á landinu fremur kalt í veðri og víða næturfrost með lítilli framvindu gróðurs. Eftir að hlýnaði og fór að rigna tók gróður hratt við sér og varð spretta nokkuð góð. Veðráttan getur haft töluverð áhrif á fóðurgildi þannig að við hægari vöxt getur blaðvöxtur verið hlutfallslega meiri og þá mætti sjá gott fóðurgildi þó uppskeran gæti verið minni. Gæta þarf þess þó að þegar það er kalt og þurrt eftir að spretta er komin vel á veg er aukin hætta á að grösin fari að skríða of snemma, þá er lítið annað að gera en að slá þó uppskeran verði minni því við og eftir skrið fellur fóðurgildi og lystugleikinn fljótt. Þegar uppskeran er lítil í fyrsta slætti má hins vegar búast við góðri uppskeru í seinni slætti ef tíðarfar er hagstætt.

RML mun bjóða upp á heysýnatöku að vanda og er hægt að panta heysýnatöku og fóðurráðgjöf á heimasíðu RML (hnappur á forsíðu).

Ef bændur kjósa að taka sjálfir sýni þarf að hafa í huga að þegar tekið er sýni úr verkuðu fóðri þarf það að hafa verkast í 4-6 vikur áður en sýni er tekið. Taka skal sýni sem endurspegla heyforðann og það sem á að gefa yfir veturinn. Hæfileg stærð sýnis ætti að vera á stærð við handbolta, því komið í plastpoka og gott að lofttæma hann sem mest, merkja vel og koma sem fyrst í frysti.

Með þessari frétt fylgir heysýnafylgiseðillinn sem er eins og við hjá RML notum og hvetjum við bændur sem taka sjálfir sýni til þess að nota hann og senda með sýnunum. Með því að fylla hann út ýtarlega fara niðurstöður sýnanna inn í svokallaðann FAS gagnagrunn og skila sér þannig í jörð.is og NorFor kerfið og verða aðgengileg í vinnu við heysýnatúlkun, fóður- eða áburðaráætlanir. Einnig er þetta mikilvæg gagnasöfnun til að halda utan um innihald heyja á Íslandi þar sem auðvelt er að vinna úr gagnagrunninum m.a. hin ýmsu meðaltöl og breytingar yfir tímabil.

Það sem er skráð á fylgiseðill er eftirfarandi:

  • Sýnatökudagur
  • Búsnúmer (7 stafa númer)
  • Nafn og heimilisfang
  • Netfang
  • Landssvæði
  • Merking fóðursýnis
  • Slátturdagur
  • Númer hvaða sláttur
  • Velja einn fóðurkóða sem lýsir sýninu t.d. Eldri tún: Vothey og milliþurrar rúllur: Snemmslegið
  • Verkunaraðferð (t.d. rúllur)
  • Íblöndunarefni

Sjá nánar: 
Fylgiseðill með heysýnum

/okg