Heimsókn frá Maine háskóla í Bandaríkjunum

Síðustu daga hafa verið í heimsókn hér á landi dýralæknir og ráðnautur sem starfa við háskólann í Maine í Bandaríkjunum - skólinn er á austurströndinni um 400 km norðan við Boston.

Megintilgangur ferðalags þeirra var að kynna sér sauðfjársæðingar, hvernig staðið er að sæðistöku, dreifingu sæðis og framkvæmd sæðinga heima á búunum. Voru þeir á Sauðfjársæðingastöð Suðurlands í Þorleifskoti tvo morgna en auk þess var farið í heimsóknir að Heiðarbæ í Þingvallasveit, Stóru-Reykjum í Flóa, í fjósið á Hvanneyri, að Hesti í Borgarfirði, Syðstu-Fossum í Andakíl og í gróðrarstöðina í Lambhaga. Eins áttu þeir fund með nokkrum starfmönnum Landbúnaðarháskóla Íslands um möguleika á samstarfi þessara tveggja háskóla og auk þess funduðu þeir með Karvel Karvelssyni framkvæmdastjóra RML.

Eyjólfur Ingvi Bjarnason sá um að skipuleggja ferðalag þeirra og vera þeim innan handar enda þurfti oft að breyta áætlun vegna ófærðar og slæms veðurs síðustu daga - ferðalögin gengu engu að síður vel og voru þeir ánægðir með heimsóknina til landsins.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá gestina ásamt starfsfólki sauðfjársæðingarstöðvar Suðurlands:
F.v. Sveinn Sigurmundsson, Páll Þórarinsson, Páll Stefánsson, James Weber, Þóra Þórarinsdóttir, Árni Freyr Pálsson og Richard Brzozowski.

Á myndinni hér að neðan má sjá gestina ásamt Helga Elí og Snædísi Önnu sem nú reka sauðfjárbúið á Hesti.

eib/okg