Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilar tillögum sínum

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur skilað frá sér tillögum sínum en þær taka til allra helstu þátta ríkisrekstrarins og allra stærri þjónustu- og stjórnsýslukerfa ríkisins. Hagræðingarhópurinn hefur ekki lagt áherslu á beinar niðurskurðartillögur heldur á kerfisbreytingar sem beinast að breytingum á áherslum, aðferðum og skipulagi. Í hagræðingarhópnum, sem skipaður var í byrjun júlí 2013, eru Ásmundar Einars Daðasonar, alþm., sem er formaður hópsins, Guðlaugur Þór Þórðarson, alþm., Vigdís Hauksdóttir, alþm. og Unnur Brá Konráðsdóttir, alþm. Með hópnum hafa starfað sérfræðingar úr forsætis- og fjármálaráðuneyti.
Helstu tillögur hópsins sem snerta landbúnaðarmál má sjá hér á eftir:

  • Öll stjórnsýsla auðlindamála, þ.m.t. leyfisveitingar og eftirlit með auðlindanýtingu, verði sameinuð í einni stofnun. Þetta feli í sér sameiningu Orkustofnunar, Fiskistofu og veiðistjórnunarverkefna sem nú heyra undir Umhverfisstofnun. Skoðað verði í þessu samhengi hvort kvótar í landbúnaði og loftslagskvótar eigi heima í sameinaðri stofnun (umrædd verkefni heyra einnig undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra).
     
  • Metin verði skilvirkni greiðslna til landbúnaðarins. Jafnframt verði skipaður starfshópur sem vinni að stefnumótun um fyrirkomulag ríkisstuðnings þar sem stefnt verði að því að efla matvælaframleiðslu samhliða því að auka framleiðni og hagkvæmni.
     
  • Greiðslum til Bændasamtaka Íslands verði hætt. Búnaðarlagasamningnum verði breytt þannig að áfram verði stuðningur við ákveðin verkefni og má þar t.d. nefna kornrækt, verndun búfjárstofna o.fl.
     
  • Verðtilfærslum og verðmiðlun á mjólk verði hætt og er þessi liður þegar kominn til vinnslu í ráðuneyti landbúnaðarmála.
     
  • Kostnaður við innleiðingu dýraverndunarlaga verði endurskoðaður.
     
  • Atvinnuþróunarsjóðir, svo sem lánastarfsemi Byggðastofnunar, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, AVS og ýmsir smærri sjóðir, verði sameinaðir í einn öflugan atvinnuþróunarsjóð sem ráði yfir fjölbreyttum fjármögnunartækjum til að styðja fyrirtæki. Aukin áhersla verði lögð á lánsábyrgðir í samvinnu við banka og tekið tillit til byggðasjónarmiða með breytilegu ábyrgðarhlutfalli eða ábyrgðargjaldi (umrædd verkefni heyra einnig undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra).
     
  • Starfsemi Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins og landshlutabundinna skógræktarverkefna verði sameinuð í eina stofnun. Skoðað verði hvort rannsóknarhlutinn geti færst yfir til háskóla og ráðgjafarhlutinn til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Sjá nánar:
Tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um aukna framleiðni og skilvirkni í ríkisrekstri 

 /gj