Göngum flýtt víða á norðanverðu landinu vegna veðurspár

Víða á norðanverðu landinu hefur verið ákveðið að flýta göngum vegna yfirvofandi illviðris um komandi helgi. Þannig hefur þegar hefur verið tekin ákvörðun um að flýta göngum í allri Suður-Þingeyjarsýslu og Kelduhverfi. Í Húnaþingi vestra fara gangnamenn af stað í dag og reiknað er með að þar verði smalað á morgun og á fimmtudag. Í Austur-Húnavatnssýslu er stefnt á að smala víða á morgun og fimmtudag og sömu sögu er að segja úr Skagafirði og Eyjafirði.

Í Svarfaðardal er stefnt að því að smala næstu tvo daga sem og í Hörgársveit. Birgir Arason í Gullbrekku, fjallskilastjóri í Eyjafjarðarsveit, segir að þar á svæðinu verði farið á Garðsárdal á fimmtudag og sömuleiðis á Vaðlaheiði.

Fjallskilastjórar í Þingeyjarsýslu ákváðu á fundi með sýslumanni og almannvörnum að hefja smalamennsku í dag á einhverjum svæðum en á morgun og fimmtudag annars staðar.

Sjá nánar:
Skipa aðgerðastjórn vegna veður - frétt á mbl.is
Göngum flýtt á norðanverðu landinu - frétt á bbl.is

/gj