Góður gangur í starfsemi RML

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) er nú á sínu fjórða starfsári. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að til yrði öflugt ráðgjafarfyritæki sem byði upp á faglega ráðgjöf ásamt því að sjá um framkvæmd skýrsluhalds og ræktunarstarf. Í upphafi árs 2013 beið okkar stjórnenda og starfsmanna ögrandi verkefni að sameina í eitt fyriræki og byggja upp starfsemi sem bændur vildu nýta. Það voru ekki allir sáttir við þessar breytingar af margskonar ástæðum, aðrir sáu í þessu tækifæri.

Síðasta rekstrarár var hagstætt

Rekstrarárið 2015 kom vel út og fyrirtækið skilaði rúmum 16 milljóna króna hagnaði eftir taprekstur fyrstu tvö árin. Hagræðingaraðgerðir sem var farið í vorið 2014 ásamt vaxandi sölu á ráðgjöf til bænda hefur skilað sér í bættri afkomu fyrirtækisins. Mikil áhersla var lögð á það strax frá stofnun að halda vel utan um verkskráningar og gera upp helstu verkefni. Við höfum því í dag miklar upplýsingar um starfsemina og hvernig fjármagnið sem við fáum er að nýtast í rekstrinum.

4000 viðskiptavinir

Viðskiptamannahópurinn hefur stækkað um þriðjung frá fyrsta rekstrarári. Það þýðir að nýir viðskiptavinir eru um 1.000 og heildarfjöldi þeirra var um 4.000 á síðasta ári. Tekjur hafa aukist um 15% frá fyrsta rekstrarári, langmest vegna sértekna en þær hafa aukist um tæpar 50 milljónir. Á sama tíma hafa gjöld aukist um tæp 2%. Árangur í rekstri er því verulegur og tekist hefur nokkuð vel að búa fyrirtækið rekstrarlega undir þá framtíð að standa án tekna úr búnaðargjaldi. Sú meginbreyting að innheimta fyrir veitta ráðgjöf veitir okkur aðhald og styrkir faglega og árangursríka vinnu bændum til hagsbóta. Heilmikil vinna hefur farið í að þróa ráðgjöfina og gera hana aðlaðandi þannig að bændur sjái sér hag í því að nota hana. Það er metnaður okkar að gera betur ár frá ári og í því sambandi setjum við okkur mælanleg markmið í starfinu sem við nýtum okkur til hvatningar en ekki síður til að auka markvisst þann tíma sem við nýtum í beina ráðgjöf til bænda.

Faglegt starf

Fjölmörg dæmi eru um að bændur sjái ávinning af ráðgjafarþjónustunni, bæði beinan fjárhagslegan og til að hjálpa til við ákvarðanatöku. Við höfum einnig fengið mjög góðar umsagnir meðal annars frá lánastofnunum, búgreinafélögum og fyrirtækjum fyrir vel unnar áætlanir. Við höfum reynt að skapa svigrúm í rekstrinum til þess að þróa hjá okkur faglegt starf með endurmenntun ráðunauta, teymisvinnu og ýmiskonar þróunarvinnu. Menntunarstigið í fyrirtækinu er hátt en einnig er starfsreynsla margra ráðunauta mikil. Þekking innan fyrirtækisins er því afar mikil sem nýtist nýjum starfsmönnum vel. Við höfum nýtt þá sjóði sem í boði eru til að styðja við þróunarstarf og á síðasta ári unnum við að fleiri þróunarverkefnum en nokkru sinni áður, sem eru þegar farin að skila sér inn í starfið hjá okkur. Auðvitað eru alltaf tækifæri til að gera betur. Umhverfi landbúnaðarins er síbreytilegt og við þurfum stöðugt að leita okkur þekkingar, tileinka okkur nýjungar og fylgjast með áherslubreytingum í ráðgjöf erlendis. Við þurfum líka að flytja inn þekkingu ásamt því að styðja við og hvetja til að rannsóknir séu gerðar innanlands. Innan fyrirtækisins er því unnið að gerð starfsþróunaráætlana fyrir hvern og einn starfsmann, sem tekur mið af áherslum viðkomandi en endurspeglar eftirspurnina á hverju sviði fyrir sig.

Breyting á búnaðargjaldi

Eins og kunnugt er eru allar líkur á að innheimtu búnaðargjalds verði hætt um næstu áramót. Búnaðargjaldshlutur RML hefur verið um þriðjungur af tekjustofni RML eða um 145 milljónir. Gjaldið hefur því verið félaginu mikilvægt og ljóst var að núverandi starfsemi myndi ekki þola það ef þessar tekjur hyrfu í einu vettvangi. Með rammasamningi sem samþykktur var á síðastliðnu búnaðarþingi hefur það verið tryggt að samsvarandi tekjur komi inn í RML árið 2017. Þær tekjur munu dragast saman ár frá ári þannig að í lok samningstímabilsins eftir 10 ár verða þær ekki lengur fyrir hendi. Því eru gerðar ríkar kröfur á fyrirtækið um að ná enn meiri árangri í rekstri, eigi að halda úti viðlíka starfsemi og verið hefur.

Stefnumótun

Stjórn RML hefur ákveðið að setja af stað stefnumótunarvinnu sem áætlað er að verði lokið í haust. Umhverfið er að breytast, tekjustofnar að minnka og því er mikilvægt að fá rödd bænda og starfsfólks með skýrum hætti að mótun áherslna fyrirtækisins og sóknaráætlunar þess til næstu ára. Á búnaðarþingi voru ýmsir þættir í rekstri RML til umfjöllunar hjá nefndum. Sú vinna ásamt spurningakönnun og jafnvel fundahöldum með bændum mun vera notuð til að draga fram hugmyndir bænda varðandi framtíðarstefnu RML. Fyrirtækinu er ætlað að starfa fyrir og í þágu bænda og miklu máli skiptir að þeir láti sig varða hvert því er ætlað að stefna.

Ég er þess fullviss að RML muni gegna veigamiklu hlutverki til framtíðar og við viljum vera öflugur valkostur fyrir bændur sem eru bæði okkar eigendur og viðskiptavinir. Við gerum ráð fyrir að þær breytingar sem boðaðar hafa verið í búvörusamningum sem nú eru í atkvæðagreiðslu hjá bændum muni leiða til þess, að verkefni okkar muni aukast verulega á næstu misserum.

Karvel Lindberg Karvelsson, framkvæmdastjóri RML

 

klk/okg