Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Frá og með næstu áramótum verða gerðar breytingar á gjaldtöku fyrir grunnskráningar á hrossum. Breytingarnar eru gerðar með hliðsjón af reglugerð um einstaklingsmerkingar og með það að markmiði að hvetja hesteigendur til að merkja og skrá folöld í samræmi við gildandi reglur. Ekki verður tekið gjald fyrir grunnskráningu á folöldum folaldsárið eða til 1. mars árið eftir að folald fæðist. Samkvæmt einstaklingsmerkingarreglugerð er skylt að skrá og merkja folöld innan þess tíma. Skráningargjald verður hins vegar innheimt fyrir allar grunnskráningar hrossa sem berast eftir tilskyldan skráningartíma hvort heldur sem þær berast inn á grunnskráningarblöðum eða á örmerkjablöðum. Innheimt verður fyrir þær samkvæmt gjaldskrá RML. Menn eru hvattir til að grunnskrá og merkja þau hross sem enn eru ómerkt fyrir áramótin.
Eins og sjálfsagt flestir vita hefur frá árinu 2003 verið skylda að einstaklingsmerkja folöld fyrir 10 mánaða aldur, samkvæmt reglugerð nr. 463/2003 um merkingar búfjár. Árið 2005 kom út ný reglugerð (nr. 289/2005) þar sem kveðið er á um að öll hross skuli vera einstaklingsmerkt, burt séð frá aldri þeirra. Tilgangurinn með þessum merkingum er að tryggja rekjanleika gripa og afurða ef eitthvað kemur upp á. Í ljósi stöðunnar í dag er greinilegt að þessu hefur ekki verið fylgt nægilega vel eftir, því enn er talsvert til af ómerktum og óskráðum hrossum. Hesteigendur hafa mikinn hag af því að hafa skráningar og merkingar í lagi og örmerki hafa fyrir löngu sannað gildi sitt.
Hestamenn sem eru í hestamannafélagi eða Félagi hrossabænda eiga að hafa frían aðgang að WorldFeng. Þar er að finna óhemjumikið magn upplýsinga um ættir, örmerki, sýningar o.fl. Gott er að fara reglulega í gegnum hvort upplýsingar þar séu réttar. Hafa örmerkingar, DNA-sýni eða eigandaskipti skilað sér inn? Þeir sem hins vegar hafa ekki aðgang að WorldFeng geta alltaf farið inn á heimasíðuna www.worldfengur.com og þá kemur upp skjámynd eins og sýnd er hér fyrir neðan. Þarna er hægt er að fletta upp hrossum eftir nafni og uppruna, fæðingarnúmeri eða örmerki. Þannig geta hesteigendur sem ekki hafa aðgang að WorldFeng skoðað hvort þeirra hross eru ekki örugglega grunnskráð og hvort að sú skráning sé rétt.
Hægt er að hafa samband við starfsmenn á sviði hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) til að fá nánari upplýsingar eða aðstoð við skráningar í síma 516-5000. Hér á heimasíðu okkar má einnig finna upplýsingar um hvaða þjónustu RML hefur í boði fyrir hestamenn.
hes/okg