Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Nú liggur fyrir bráðabirgðauppgjör 70 sauðfjárbúa sem eru þátttakendur í verkefninu „Betri gögn – bætt afkoma“. Að baki þessum gögnum er framleiðsla á tæplega 740 tonnum dilkakjöts haustið 2022 sem endurspeglar um 10% af landsframleiðslu ársins. Meðalbústærð þessara búa er um 490 vetrarfóðraðar ær.
Heildartekjur vegna sauðfjárræktar hækka um 431 kr/kg milli áranna 2021 og 2022, þar af hækka afurðatekjur um 217 kr/kg. Einskiptisaðgerðir ríkisstjórnar í formi sprettgreiðslna og álagsgreiðslna vegna áburðarverðshækkana skipta hér verulegu máli í afkomu ársins og eru samtals 166 kr/kg.
Stórir liðir í breytilegum kostnaði hækka mikið milli ára. Áburður hækkar um 122 kr/kg og einnig hækkaði olía, rekstur búvéla, rúlluplast og aðrar rekstrarvörur umtalsvert. Fastur kostnaður tekur hins vegar ekki miklum breytingum á milli ára, en hækkar vissulega jafnt og þétt að undanskildu viðhaldi eigna sem dregst saman. Þá skal minnt á að mánaðarlaun í þeim fasta kostnaði sem hér birtist eru rúmar 296 þúsund krónur á mánuði sem er langt undir þeim launum sem eru á almennum vinnumarkaði.
Fjármagnsliðir hækka verulega á milli ára en skuldahlutfall lækkar sem skýrist helst af aukinni veltu á búunum. Framleiðslukostnaður án afskrifta og fjármagnsliða er 1.535 kr/kg. Með afskriftum og fjármagnskostnaði eru þetta 1.899 kr/kg.
Hagnaður af heildarrekstri búanna hækkar lítillega milli ára en rekstrarniðurstaða sauðfjárhluta búanna er áfram neikvæð en „batnar“ frá árinu 2021 sem skýrist helst af sprett- og álagsgreiðslum. Engar vísbendingar eru um aukagreiðslur á árinu 2023 og því þarf afurðastöðvaverð að hækka umtalsvert eigi rekstur sauðfjárbúa að skila viðunandi afkomu á árinu og standa undir einhverri launagreiðslugetu.
Áfram verður unnið að öflun gagna og eru þeir bændur sem ekki hafa þegar sent inn gögn hvattir til að flýta rekstaruppgjörum sínum og senda inn til úrvinnslu. Nýir þátttakendur eru boðnir velkomnir í verkefnið. Í þessu bráðabirgðauppgjöri er ekki búið að vinna gögn úr skýrsluhaldsforritinu Jörð og því er þetta ekki endanlegt uppgjör fyrir þau bú sem þegar hafa lagt fram gögn.
Þó langvarandi afkomuleysi hafi haft neikvæð áhrif á greinina undanfarin ár skal minnt á það sem vel er gert en íslensk sauðfjárrækt er vel skipulögð og afurðir eftir hvern grip eru mun meiri en í mörgum löndum í kringum okkur. Það eru atriði sem við skulum halda vel á lofti og vera stolt af á komandi misserum.
Rekstur sauðfjárbúa 2019-2022 - bráðabirgðauppgjör júní 2023