Fyrstu niðurstöður úr rekstri kúabúa 2022

Nú liggur fyrir bráðabirgðauppgjör 70 kúabúa sem eru þátttakendur í verkefninu um Rekstur kúabúa og hafa verið með í verkefninu frá upphafi. Þessi bú lögðu inn tæplega 25,5 milljónir lítra árið 2022 sem endurspeglar 17,2% af landsframleiðslu ársins. Á þessum búum hefur kvótaeign aukist hlutfallslega meira en innlegg ársins en umfang kjötframleiðslu er svipað á milli ára.

Afurðastöðvaverð mjólkur hækkar umtalsvert milli áranna 2021 og 2022 en þar þarf að hafa í huga að viðbótargreiðslur á innlagða umframmjólk árin 2020-2021 komu til tekna á árinu 2022, sem skýrir að meðal mjólkurverð er hærra en viðmiðunarverð ársins að meðaltali. Sprettgreiðslur sem álag á gripagreiðslur, sláturálag nautakjöts og jarðræktarstuðning skipta hér verulegu máli í afkomu ársins 2022.

Afurðatengdar tekjur og heildartekjur þessara búa hækka talsvert milli ára eða um 18%.

Stórir liðir í breytilegum kostnaði hækka verulega á árinu 2022, svo sem áburður, fóður, olía, rekstur búvéla, rúlluplast og fleira. Fastur kostnaður tekur hins vegar ekki miklum breytingum á milli ára, en hækkar vissulega jafnt og þétt að undanskildu viðhaldi eigna sem dregst saman.

Framlegð afurðatekna hækkar í krónum talið en framlegðarstigið lækkar og skýrist það af því að breytilegur kostnaður hefur hækkað hlutfallslega meira en afurðatekjurnar.

Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA), hækkar í krónum talið á milli ára en helst hlutfallslega svipuð í prósentum. Hagnaður þessara búa er að meðaltali liðlega 2,1 milljón króna eða 2,9% af veltu ársins.

Fjármagnsliðir hækka verulega á milli ára en skuldahlutfall lækkar sem skýrist annars vegar af aukinni veltu og hins vegar af því að hluti þessara búa hefur fært sig meira yfir í óverðtryggð lán.

Áfram verður unnið að öflun gagna og eru þeir bændur sem ekki hafa þegar sent inn gögn hvattir til að flýta rekstraruppgjörum sínum og senda inn til úrvinnslu. Í þessu bráðabirgðauppgjöri er ekki búið að vinna gögn úr skýrsluhaldsforritinu Jörð og því er þetta ekki endanlegt uppgjör fyrir þau bú sem þegar hafa lagt fram gögn.

Sjá nánar: 
Rekstur 2019-2022

/okg