Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Svo skemmtilega vill til að arfgerðin T137 hefur nú loks fundist í hrút. Hrútur þessi er frá bænum Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd við Eyjafjörð. Þar reka þau Snorri Snorrason og Brynja Lúðvíksdóttir myndar fjárbú en þau hafa u.þ.b. 350 kindur á vetrarfóðrum. Það er hrúturinn Austri 20-623 sem skartar þessari arfgerð en hann er hvítur að lit og hyrndur. Austri er hinn álitlegasti kynbótagripur og var sá hrútur búsins sem átti hvað öflugasta sláturlambahópinn sl. haust á búinu. Hann átti um 60 afkvæmi með sláturupplýsingar og hlutu þau að jafnaði 10,7 fyrir gerð og 5,7 fyrir fitu við 17,5 kg fallþunga. Faðir Austra er sæðingastöðvahrúturinn Amor 17-831 frá Snartarstöðum, en ekki kemur T137 frá honum. Móðurættin er frá Stóru-Hámundarstöðum í grunnin en er aðeins blönduð með hrútum af sæðingastöðvunum. Það er þó bara einn stöðvahrútur sem kemur fyrir í fyrstu fjórum ættliðunum í móðurætt Austra en það er Myrkvi 10-905 frá Brúnastöðum sem er MFF. Amma Austra er ein af betri afurðakindum búsins og er með 119 stig fyrir mjólkurlagni. Kynbótamat Austra er:
120 (gerð) – 112 (fita) – 103 (frjósemi) – 104 (mjólkurlagni).
Nú liggja fyrir upplýsingar um 3.500 sýni (niðurstöður hafa verið sendar til bænda) auk bráðabirgðaniðurstöðu úr um 2.500 sýnum til viðbótar. Enn er arfgerðin ARR ófundin nema á Þernunesi. Hin mögulega verndandi arfgerð T137 finnst nú á þrem bæjum en áður hafði hún fundist á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og á bænum Straumi í Hróarstungu á Héraði.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast meira um mismunandi arfgerðir má geta þess að málefni tengd riðuveiki verða fyrirferðarmikil í dagskrá fagfundar sauðfjárræktarinnar sem haldinn verður á Hvanneyri þann 7. apríl næstkomandi af fagráði í sauðfjárrækt í samstarfi við RML, BÍ og LbhÍ. Sérstakur netfundur verður haldinn daginn áður (6. apríl) í tengslum við fagfundinn þar sem eingöngu verður fjallað um riðurannsóknir en þar munu nokkrir erlendir vísindamenn veita fræðslu og segja frá rannsóknum sem eru í farvatninu. Betur verður sagt frá dagskrá þessara funda á næstu dögum.