Fyrsta sæðing með kyngreindu sæði á Íslandi

Jónmundur Magnús, frjótæknir, mundar pípuna og Björn Ingi, fjósameistari, heldur í halann við sæðing…
Jónmundur Magnús, frjótæknir, mundar pípuna og Björn Ingi, fjósameistari, heldur í halann við sæðingu með fyrsta kyngreinda sæðisskammtinum sem notaður er á Íslandi.

Nú í desember var íslenskt nautasæði tekið til kyngreiningar á Nautastöðinni á Hesti í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Kyngreint var sæði úr fimm íslenskum nautum og einu Angus-holdanauti. Kyngreinda sæðið verður notað í tilraun og er nú þegar á leið til frjótækna. Notkun getur hafist jafnóðum og örlitlum lagfæringum á Huppu er lokið. Í tilrauninni verður kannað hvert fanghlutfall er þegar notað er kyngreint sæði annars vegar og venjulegt sæði hins vegar. Framkvæmd tilraunarinnar verður kynnt nánar í komandi viku.

Sæðið sem kyngreint var úr Angus-nautinu Lunda 23403 verður hins vegar ekki í tilraun en þar er um að ræða sæði sem kyngreint var til þess að fá nautakálfa, þ.e. Y-sæði. Líkt og þegar við hófum notkun á langlífu sæði (SpermVital) þá var fyrst sætt í Hvanneyrarfjósinu.