Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Dagana 19. til 23. júní var haldinn fundur í alþjóðlegu verkefni sem snýst um rannsóknir á riðuveiki á Íslandi. Þátttakendur í þessu verkefni eru sérfræðingar sem koma frá 5 löndum auk Íslands en fundinn sóttu 14 erlendir sérfræðingar. Þeir komu frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Þýskalandi. Þar að auki eru fjórir Íslenskir þátttakendur, en það eru þau Karólína Elísabetardóttir, Hvammshlíð, Stefanía Þorgeirsdóttir og Vilhjálmur Svansson frá Keldum og Eyþór Einarsson frá RML. Fundurinn var í raun upphafsfundur í verkefni sem kallast „Classical Scrapie in Iceland – ScIce“ og styrkt úr sjóðum Evrópusambandsins. Markmið rannsóknanna sem unnið verður að eru nokkur, þar á meðal að skoða næmi mismunandi arfgerða, skilgreina þá riðustofna sem finnast hér á landi og skoða riðu út frá faraldsfræðilegu sjónarmiði.
5 breytileikar sýna mikla mótstöðu en hlutlausa arfgerðin næm
Í tengslum við fundinn var haldinn opinn bændafundur í Miðgarði í Skagafirði. Þar var m.a. farið yfir stöðu á arfgerðargreiningum í íslenska fjárstofninum samkvæmt göngum úr Fjárvís.is en þegar liggja fyrir niðurstöður úr yfir 6.000 lömbum og þar af hátt í þúsund lömb með ARR genasamsætuna. Kynntar voru niðurstöður úr breskum smitrannsóknum af Ben Maddison sérfræðingi í umhverfissmiti sem sýna hve lífseigt smitefnið er. Þá kynnti Vincent Béringue niðurstöður úr næmisrannsóknunum sem hann hefur verið að framkvæma með PMCA prófunum á tilraunastofu í Frakklandi. Þessum rannsóknum er ekki lokið en helstu tíðindin úr þeim er að breytileikarnir T137, N138, C151, H154 (AHQ genasamsætan) og R171 (ARR genasamsætan) virðast allar veita mjög mikla mótstöðu gegn riðu. Hinsvegar virðist hlutlausa arfgerðin (ARQ) vera næm fyrir riðu og lítill munur á henni og áhættuarfgerðinni VRQ.
Vinna þessa hóps á örugglega eftir að styrkja talsvert þekkingu okkar á riðuveikinni og styðja við þá vinnu sem þegar er hafin við að rækta upp þolinn sauðfjárstofn í landinu. Merk tíðindi eru það út af fyrir sig að þessi hópur vísindamanna er búin að taka saman höndum og hafi komið saman hér á landi.
Upptökur frá fundum og fyrirhugaður netfundur
Þar sem upptökur af bændafundinum í Miðgarði fóru forgörðum hafa sumir fyrirlestrarnir verið endurfluttir. Karólína hefur séð um að vinna upptökur frá bændafundinum og endurflutt efni erlendu vísindamannanna, en hún sá um að þýða þeirra fyrirlestra á fundinum sjálfum.
Þar sem ekki tókst að flytja allt efni á bændafundinum í Miðgarði sem til stóð verður boðið upp á netfund með vísindamönnunum. Þessi fundur er áætlaður upp úr miðjum júlí og verður auglýstur betur þegar nær dregur.
Á myndinni sem fylgir má sjá vísindahópinn ásamt sr. Gísla Gunnarssyni vígslubiskupi og Þuríði Þorbergsdóttur sem tóku á móti hópnum á Hólum í Hjaltadal. Myndina tók Guðbergur Davíðsson.
Sjá nánar:
Upptökur af fyrirlestrum fundanna
/okg