Fræðsla um sauðfjárbúskap fyrir sunnlenska og skagfirska sauðfjárbændur

Fyrir fáeinum árum settu starfsmenn Búnaðarsambands Austurlands af stað fundaröð sérsniðna fyrir sauðfjárbændur og gekk hún undir nafninu „Sauðfjárskólinn“. Sambærileg fræðsla var síðan boðin sauðfjárbændum í Strandasýslu, Húnavatnssýslum, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og stóðu viðkomandi búnaðarsambönd fyrir þessum fundum þar. Sauðfjárskólinn var mjög vel sóttur í þessum héruðum og bændur almennt ánægðir með þetta framtak.

RML ætlar að halda þessu starfi áfram og bjóða næst sauðfjárbændum í fimm sýslum landsins þennan fræðslukost. Þessar sýslur eru Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla, Rangárvallasýsla, Árnessýsla og Skagafjarðarsýsla. Allir sauðfjáreigendur í þessum sýslum sem áttu 50 ær eða fleiri á síðasta framleiðsluári hafa þegar fengið bréf um þessa fræðslu. Þeim sauðfjáreigendum á þessum svæðum, sem eiga færra fé, er að sjálfsögðu velkomið að koma í „Sauðfjárskólann“. 

„Sauðfjárskólinn“ stendur í u.þ.b. eitt framleiðsluár og verða haldnir sjö fundir á þessum tíma, sem standa alla jafna frá kl 13-17. Fyrsti fundurinn verður í síðari hluta nóvember n.k. og sá síðasti um ári síðar. Á þessum fundum verður fjallað um fjölmargar hliðar sauðfjárræktar en meginstefið verður hvernig ná megi sem bestum árangi og afkomu í þessari búgrein. Leiðbeinendur verða fyrst og fremst starfsmenn RML á sviði sauðfjárræktar en starfsmenn RML á sviði jarðræktar, bútækni og rekstrar verða einnig leiðbeinendur á sumum fundunum. Jafnframt verður leitast við að fá þátttakendur til að miðla reynslu sinni úr sauðfjárbúskapnum.

Eins og fyrr segir er ráðgert að bjóða „Sauðfjárskólann“ næst á fimm stöðum, þ.e. Smyrlabjörgum í Suðursveit, Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli, Stóra-Ármóti í Flóa og Sauðárkróki. Til þess að „Sauðfjárskólinn“ sé settur af stað á hverjum stað þurfa að lágmarki 15 bú að vera skráð til þátttöku. Frá hverju búi geta komið á fundina þeir aðilar sem standa að búrekstrinum þannig að t.d. hjón geta komið bæði eða skipst á að mæta ef það hentar. Í nóvember á næsta ári er ráðgert að bjóða sauðfjárbændum á hinu gamla starfssvæði Búnaðarsamtaka Vesturlands að byrja í „Sauðfjárskólanum“ og mun hann þá hafa verið í boði í öllum sveitum landsins.

Sunnlenskir og skagfirskir sauðfjárbændur sem hafa áhuga á „Sauðfjárskólanum“ þurfa að skrá sig fyrir 25. október n.k. Senda skal skráningu í tölvupósti á netfangið rml@rml.is eða hringja í síma 516-5000. Í skráningunni þarf að koma skýrt fram nafn bæjar og nöfn, kennitölur, símanúmer og netföng þátttakenda frá búinu. Haft verður samband við alla sem skrá sig fyrir 1. nóv. Í sama netfangi eða símanúmeri er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um kostnað og fleiri atriði vegna þátttökunnar en þessi atriði eru vel skýrð í bréfinu sem sauðfjárbændur á þessum svæðum fengu um miðjan september.

abb/okg