Forskráning eldri sýnahylkja sem ekki hafa verið skráð á bú í Fjárvís

Í dag var lokað fyrir möguleikann „Forskrá eldri hylki“ í Fjárvís. Þeir sem eiga enn sýnahylki sem afgreidd voru á árunum 2022 og 2023 geta engu að síður notað þau, en nú þarf að forskrá þau sýni hjá RML. Alltaf á að senda útfyllt fylgiblöð með sýnum þar sem fram koma upplýsingar um númer sýna og númer gripa. Í þessu tilfelli er sérstaklega mikilvægt að ekki gleymist að láta þessar upplýsingar fylgja með svo hægt verði að forskrá sýnin á rétta gripi. Sé sýnablaðið sem fylgdi hylkjunum ekki lengur til er hægt að prenta út eyðublað (sjá tengil neðst) og skrá upplýsingarnar þar.

Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að tíðar villur í innslætti á sýnanúmerum valda vandamálum við innlestur á niðurstöðum greininga. Enginn aukakostnaður fylgir þessu fyrir bændur þar sem ekki verður innheimt fyrir þessa skráningarvinnu og með þessu er verið að tryggja sem best að allar niðurstöður skili sér inn á rétta gripi.

Áfram er gert ráð fyrir að bændur sjái sjálfir um forskráningu á þeim sýnum sem hafa verið afgreidd inn á búið og koma fram í sýnaleitinni með stöðuna „úthlutað“. Vanti þeim uppfærð fylgiblöð með forprentuðum sýnanúmerum geta þeir nálgast þau í Fjárvís undir „DNA sýnaleit“ - „Sækja sýnablöð“.

Ef einhverjir eru í vafa um hvort sýnahylki er svokallað „eldra hylki“ er best að ganga úr skugga um það með að skoða hvort það finnst í þeim sýnanúmerum sem hafa verið afgreidd inn á búið eftir að öll afgreiðsla sýnatökubúnaðar fór inn í Fjárvís. Ef númerið finnst ekki í sýnaleitinni og kemur ekki upp sem númer sem búið á þegar verið er að forskrá er hylkið „eldra hylki“.

Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að hafa samband í síma 516-5000 eða í gegnum tölvupóst á netfangið dna@rml.is.

Sjá nánar:
Skráningareyðublað til útprentunar

/okg