Fóðurkostnaður kúabúa: Greining og leiðir til hagræðingar

Fóðurkostnaður á kúabúum er mjög stór hluti af heildarkostnaði við rekstur búa og gefa niðurstöður úr verkefninu „Rekstur kúabúa 2017-2020“ til kynna að breytileiki í fóðuröflunarkostnaði sé mikill.

Nauðsynlegt er að tengja jarðræktar- og fóðurráðgjöf betur við rekstrarafkomu og innleiða aukna vitund um mikilvægi góðs alhliða skýrsluhalds og nýtingu þess til bústjórnar. Bætt nýting aðfanga og framleiðslugripa er gríðarlega mikilvægur þáttur í að draga úr kolefnislosun í búrekstri og stuðlar að sjálfbærni landbúnaðar.

Fóðurkostnaður á kúabúum
Út er komin skýrsla frá RML um fóður- og fóðuröflunarkostnað á kúabúum sem byggir á niðurstöðum úr verkefninu „Rekstur kúabúa 2017-2020“.

Í tengslum við þá greiningarvinnu var sett upp notendavænt líkan fyrir bændur til að máta sig að meðalfóðurkostnaði 107 kúabúa.

Afurð þessa verkefnis er ætlað að leiða til aukinnar þekkingar á samspili bústjórnar og rekstrarafkomu ásamt því að stuðla að því að ráðgjöf til bænda verði markvissari hvað varðar fóðrun og fóðuröflun. Jafnframt var útbúin skýrsla um niðurstöður fóðurkostnaðargreiningar.

Helstu niðurstöður þessarar skýrslu benda til þess að skýr tenging sé milli fóðurkostnaðar og aldurs fyrsta kálfs kvígna við burð. Einnig kemur skýrt fram að mikilvægt er að lækka hlutfall kostnaðar við aðkeypt fóður af heildarfóðurkostnaði án þess að það komi niður á afurðasemi.

Sá kostnaður sem liggur í fjármagnsbindingu véla og tækja er stór hluti af kostnaði fóðuröflunar og má víða sjá veruleg tækifæri til hagræðingar.

Fyrst og síðast liggja tækifærin í bættri bústjórn sem byggir á góðu skýrsluhaldi og nýtingu þess.

Sjá má bæði fóðurkostnaðarlíkanið og niðurstöðuskýrsluna í hlekkjum hér að neðan.

Við hvetjum bændur til að kynna sér skýrsluna sem og að nýta sér líkanið til útreikninga á fóðuröflunarkostnaði eigin búa.

Ráðunautar RML eru svo alltaf til staðar til skrafs og ráðagerða enda er það mikilvægt okkur öllum að ástunda fóðuröflun á sem hagkvæmastan máta án þess að gengið sé á gæði fóðurs.

Sjá nánar: 
Fóðurkostnaður kúabúa
Fóðurkostnaðarlíkan

/okg