Fjöldi arfgreindra nautgripa kominn yfir 30 þús.

Nú um mánaðamótin maí/júní náðist sá áfangi að fjöldi arfgreindra nautgripa fór yfir 30 þúsund, nánar tiltekið í 30.038. Af þessum rúmlega 30 þús. gripum eru 16.320 kýr, 12.042 kvígur og 1.676 naut. Skiptingin miðast við stöðu gripanna eins og hún er skráð í dag eins og sjá má hvað best á því að af rúmlega 16 þús. kúm eru 430 fæddar 2022, þ.e. þær voru arfgreindar sem kvígur eru nú orðnar mjólkurkýr. Stærstur hluti þessara gripa er fæddur 2023 en af gripum fæddum á því ári hafa verið arfgreind 361 naut og 8.645 kvígur. Af gripum fæddum 2022 voru arfgreindar 5.260 kvígur/kýr og 239 naut og fæddum á þessu ári er búið að arfgreina 2.673 kvígur og 157 naut eða 2.830 gripi. Gripir fæddir árin 2022-2024 telja því rétt tæp 58% allra arfgreindra gripa í íslenska kúastofninum. Það er því nokkuð ljóst að innan örfárra ára verður meirihluti stofnsins arfgreindur með tilheyrandi hækkun á öryggi kynbótamats, traustara vali og auknum erfðaframförum.

Taka og söfnun DNA-sýna er í góðum farvegi og gengur snurðulaust fyrir sig. Segja verður eins og er að það góða samstarf sem við eigum við mjólkuriðnaðinn um söfnun sýnanna hefur sannað gildi sitt en fullyrða má að þar höfum við komið á einhverju skil- og fljótvirkasta kerfi sem völ er á.