Fjögur ný naut í notkun

Magni 20002. Mynd: NBÍ
Magni 20002. Mynd: NBÍ

Fjögur ný naut hafa nú verið sett í notkun og um leið fara eldri og mikið notuð naut úr notkun. Þeir sem koma nýir inn eru Magni 20002 frá Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði undan Jörfa 13011 og Blöndu 609 Lagardóttur 07047, Gauti 20008 frá Gautsstöðum á Svalbarðsströnd undan Sjarma 12090 og Hólmfríði 1410 Boltadóttur 09021, Mjölnir 210285 frá Sólvangi í Fnjóskadal undan Kláusi 14031 og Brák 612 Úlladóttur 10089 og Drangur 22004 frá Hólmahjáleigu í Landeyjum undan Bikar 16008 og Tindu 1553 Úranusdóttur 10081. Þeir Magni 20002 og Gauti 20008 hafa áður verið í notkun og þá sem óreynd naut en Mjölnir 21025 og Drangur 22004 koma í fyrsta sinn til notkunar. Rétt er að vekja athygli á að Drangur er fyrsti sonur Bikars 16008 sem kemur til notkunar.

Úr notkun fara eftir að gegnt skyldu sinni vel og um nokkra hríð þeir Kollur 18039, Skáldi 19036, Simbi 19037, Kvóti 19042, Marmari 20011, Hengill 20014, Banani 20017 og Hákon 21007.

Sæði úr þessum fjórum nýju nautum hefur þegar verið sent frá Nautastöðinni á Hesti til frjótækna um land allt og ætti því að berast til notkunar í þessari viku eða í síðasta lagi þeirri næstu. Kúabændur eru hvattir til notkunar á sæðingum í bæði kýr og kvígur en nautakosturinn sem til boða stendur hefur líklega aldrei verið öflugri. Þannig er lægsta einkunn nauta í notkun 109, einkunn sem hefði þótt sæma nautsföður á sínum tíma. Við horfum líka upp á þá dapurlegu staðreynd að innan við 30% kvígna eru sæddar í dag, nokkuð sem íslensk nautgriparækt fær algjöra falleinkunn fyrir.

Fram undan eru þær breytingar að naut valin á grunni erfðamengis fara að koma til notkunar. Þannig munu breytingar á nautum í notkun verða örari en jafnframt minni hverju sinni.

Upplýsingar um naut í notkun eru á nautaskra.is.