Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Samkvæmt reglugerð um stuðning í nautgriparækt (348/2022) og í sauðfjárrækt (144/2022) eru greidd framlög vegna framkvæmda þar sem markmiðið er að stuðla að bættum aðbúnaði gripa, hagkvæmari búskaparháttum og aukinni umhverfisvernd.
Umsóknafrestur vegna þessa stuðnings er 15. mars ár hvert fyrir sauðfjárræktina en 31. mars fyrir nautgriparæktina. Framkvæmdir eldri en 12 mánaða eru ekki gjaldgengar. Hægt er að sækja um styrk samfellt í þrjú ár vegna sömu framkvæmdar eða þar til hámarksstuðningi er náð. Miðað við núgildandi búvörusamninga getur stuðningur í nautgriparæktinni að hámarki orðið 40% af framkvæmdakostnaði á meðan hámarkið er 20% í sauðfjárræktinni. Kostnaður vegna kaupa á tækjabúnaði er ekki styrkhæfur.
Helstu fylgiskjöl með umsókn um fjárfestingastuðning eru:
RML hefur verið að aðstoða bændur við að koma hugmyndum á blað hvort sem það er í tengslum við nýframkvæmdir eða endurbætur á eldri byggingum. Þannig hefur RML verið að aðstoða við aðbúnaðarteikningar (eða grunn sem verkfræðistofur geta nýtt til að útbúa samþykktar byggingateikningar), áætlanagerð, skil á umsóknum og frágang á lokaskýrslum við verklok. Hér er farið yfir helstu verkferla við fjárfestingaumsóknir sem RML hefur sinnt.
Aðbúnaðarteikningar
Þegar beiðni um teikningar liggur fyrir er tekið samtal við bónda um helstu hugmyndir; um hvað skuli gera, í hvaða tilgangi og þann fjölda gripa sem húsnæðið á að sinna. Sé um að ræða endurbætur á eldri byggingum er æskilegt að til séu byggingateikningar af viðkomandi byggingum annars þarf að mæla og teikna húsin upp sérstaklega. Gott er að fá myndir af innviðum, helstu burðarstoðum, stéttum, hurðum og öðru sem taka þarf tillit til við breytingarnar. Í einhverjum tilfellum er bóndi heimsóttur og farið yfir helstu forsendur á staðnum, mælingar gerðar og teknar myndir sem nýtast teiknara RML til að átta sig á aðstæðum.
Teiknaður er grunnur, sem er byggingin sjálf, áður en farið er að gera tillögur að aðbúnaðarhugmyndum miðað við gefnar forsendur. Tekin eru skjáskot af tillögum sem send eru bónda með tölvupósti, þær ræddar og gerðar viðeigandi breytingar sé þess óskað. Þegar ásættanleg tillaga er fundin er teikningin kláruð og útbúin blöð til útprentunar fyrir bónda (sent sem pdf í tölvupósti). Þessa afurð er hægt að senda til þeirrar verkfræðistofu, sem bóndinn hefur valið að nota, ef þörf er á að skila inn samþykktri byggingateikningu. Samskipti geta síðan átt sér stað milli teiknara RML og verkfræðistofunnar sé þess óskað. Til að útkoman verði sem best fyrir bónda miðað við hans forsendur þá er mælt með þeim samskiptum. Fagþekking hvors aðila fyrir sig nýtist bóndanum vel með þessu fyrirkomulagi.
Mikilvægt er að óska eftir teikningum með nægilegum fyrirvara til að ferlið fái nauðsynlegan umhugsunartíma og heppilegasta lausnin fyrir bóndann sé fundin. Mælt er með 5-6 mánuðum fyrir skilafrest umsókna.
Mynd 1. Sýnidæmi af breytingu á fjárhúsi. Uppfæra gólf og garða. Breyta innra skipulagi hússins.
Kostnaðar- og framkvæmdaáætlun
Þegar búið er að ákveða hvaða framkvæmdir muni eiga sér stað tekur við vinna við kostnaðar- og framkvæmdaáætlun á verkinu. Sé framkvæmd byrjuð þegar fyrsta umsókn á sér stað er mikilvægt að fram komi allar upplýsingar um hvað sé þá þegar búið að gera, þ.e. eigin vinna ábúenda og kostnaður vegna efnis og aðkeyptrar þjónustu. Reikningar mega þó ekki vera eldri en 12 mánaða frá umsókna. Þessar upplýsingar eru teknar með inn í áætlunina sem á eftir að vinna. Sé framkvæmd ekki byrjuð er notast við forsendur sem byggðar eru m.a. á reynslu úr öðrum sambærilegum framkvæmdum. Útbúin er framkvæmdaáætlun þar sem kostnaðurinn er áætlaður og tekin er saman sú verklýsing sem lýsir best þeirri framkvæmd sem á að vinna eða er í vinnslu. Þá er gerð tímasett verkáætlun þar sem er áætlað á hvaða tímabili hver verkliður verður unninn. Þetta er gert fyrir bóndann og nýtist einnig við uppgjör á framvindu verksins. Í stærri verkefnum, t.d. við nýbyggingar, er mælt með að gera rekstraráætlun til að leiða í ljós hvort fýsilegt sé að fara út í viðkomandi framkvæmd miðað við rekstur og kostnað.
Umsóknir og lokaskýrslur
Starfsmaður RML tekur saman þau gögn sem búið er að afla fyrir umsóknina. Það eru gögn sem unnin eru hjá RML eða þau sem bóndinn hefur aflað (eins og staðfestingu byggingarfulltrúa, leyfi þinglýstra eiganda o.fl.). Skilað er inn umsókn í gegnum rafrænt kerfi ráðuneytisins.
Á hverju ári þarf að gera lokaskýrslu um framkvæmdir síðastliðins árs. Skilafrestur er oftast í lok janúar eða byrjun febrúar. Lokaskýrslan inniheldur samantekt um kostnað skv. afritum af reikningum eða hreyfingarlista úr bókhaldskerfi og undirritaða yfirlýsingu með eigin vinnu ábúenda. Því er mikilvægt að bóndinn haldi vinnudagbók á framkvæmdatímanum þar sem kemur fram dagsetning, fjöldi manna við verkið (óaðkeypt þjónusta) og heildartímafjöldi þann daginn. Þá er mikilvægt að halda utan um þann tímafjölda sem dráttarvél eða grafa (í eigu búsins) er notuð. Þessi óaðkeypta vinna er síðan tekin saman og notast við tímakaup sem ráðuneytið gefur út ár hvert. Það er bóndanum í hag að taka myndir af framkvæmdinni, við upphaf, á framkvæmdatímanum og í lok framkvæmdar, því myndir eru einnig staðfesting. Ef ekki hefur náðst að ljúka framkvæmdum skv. áætlun þarf greinargerð að fylgja með lokaskýrslunni sem lýsir þeim frávikum sem hafa orðið á framkvæmdinni.
Í framhaldinu er svo heimilt að sækja um að nýju fyrir næsta umsóknarfrest en eins og fyrr hefur komið fram má sækja um styrk samfellt í þrjú ár vegna sömu framkvæmdar eða þar til hámarksstuðningi er náð. Ef upp hafa komið aðstæður þar sem framkvæmd verður frábrugðin fyrri áætlunum er það tilgreint og framkvæmda- og kostnaðaráætlun uppfærð með nýrri umsókn.
Óski bændur eftir aðstoð við teikningar, áætlanagerðir og umsóknarferlið er hægt að hafa samband við rekstrarráðunauta (aðalnúmer RML 516 5000/rml@rml.is) sem munu sjá um áætlanagerðir og umsóknir. Sigurður Guðmundsson (516 5040/sg@rml.is) og Anna Lóa Sveinsdóttir (s. 516 5006/als@rml.is) sjá um teikningar. Líkt og áður segir mælum við með að bændur hafi samband í tíma svo allt gangi sem best fyrir sig.
/okg