Erfðamengisúrval: Sýnabox komin í dreifingu til bænda

Á næstu dögum verður sýnaboxum dreift með mjólkurbílunum til allra mjólkurframleiðenda á landinu. Um er að ræða glært box sem mælst er til að fest verði upp í mjólkurhúsinu á aðgengilegum stað fyrir mjólkurbílstjórana. Í boxin á síðan að setja DNA-sýnaglös eftir töku sýna og mjólkurbílstjórar safna þeim síðan jafnharðan.

Best er að viðhafa það verklag að setja sýnaglösin strax í boxið eftir einstaklingsmerkingu. Það tryggir að sýnaglösin fara ekki á flakk, með vinnugallanum í þvottavélina eða aðra staði þar sem þau geta týnst og/eða gleymst. Mjólkurbílstjórar safna sýnunum og þeim verður svo komið áfram til greiningar hjá Matís í Reykjavík.

Rétt er að hafa í huga að mælst er til þess að tekið sé sýni úr öllum kvígukálfum, það er þær verði merktar með einstaklingsmerkjum með sýnatökuglasi. Þessi merki er hægt að panta inn á bufe.is eins og önnur einstaklingsmerki. Nautkálfar verða áfram merktir með hefðbundnum einstaklingsmerkjum.

Þessi leið, að safna sýnum með mjólkurbílunum, er ákaflega örugg og skilvirk og færum við mjólkuriðnaðinum bestu þakkir fyrir gott samstarf í þessum efnum. Með þessu er erfðamengisúrval í nautgriparækt orðið að stóru samstarfsverkefni bænda, mjólkuriðnaðarins, RML og fleiri aðila.

Sjá nánar: 

DNA-sýnataka

Spurt og svarað um DNA-sýnatöku úr kvígum