Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Nú eru komnar niðurstöður arfgerðargreininga úr 1.230 gripum frá því DNA-sýnataka úr kvígum hófst er liðið var á síðasta vetur til viðbótar við þær u.þ.b. 12 þús. sem komnar voru áður. Búið er að yfirfara niðurstöðurnar með hliðsjón af ætterni og leiðrétta það þar sem kom í ljós að um rangfærslur var að ræða. Samtals reyndust 73 gripir af þessum 1.230 vera rangt ættfærðir eða 5,9%. Þá innihéldu 27 sýni það lítið erfðaefni að greining telst ómarktæk, það er ekki tókst að greina nægan fjölda erfðavísa til þess að niðurstöður séu nothæfar. Þessu til viðbótar voru sex sýnaglös tóm þegar þau komu til greiningar, nokkuð sem er illskiljanlegt hafi einstaklingsmerkið verið sett í eyra viðkomandi gripa.
Vonbrigðin við þetta eru þau að hlutfall villna fer ekki lækkandi en þær eru langflestar eða nánast allar tilkomnar vegna mannlegra mistaka. Þarna er um að ræða rangskráð faðerni, rangskráðar sæðingar eða gripavíxl. Þannig reyndist 24 gripum vera víxlað við merkingu eða í 12 tilvikum, 24 gripir voru með rangt skráð faðerni þar sem algengast er að kýr hafi haldið við aðra sæðingu en talið var eða þá fengið við heimanauti og í 23 tilvikum var um að ræða rangfærslur við sæðingar eða annað strá en skráð var reyndist notað.
Góðu fréttirnar eru þær að öll þessi tilvik eru þess eðlis að hægt er að fækka þeim með aukinni vandvirkni. Á næstu vikum og mánuðum mun sýnafjöldi fara vaxandi og niðurstöður munu berast örar. Það er því ákaflega mikilvægt að skrá burði jafnóðum í Huppu því það veldur mikilli aukavinnu og villuhættu að gripur sem komnar eru greiningarniðurstöður úr sé óskráður. Þá hyllir nú undir að hægt verði að keyra erfðamat, fá kynbótagildi á gripi sem eru nánast nýfæddir. Það verður hins vegar ekki hægt að reikna nema því aðeins að búið sé að skrá gripina. Erfðamat mun verða keyrt ört, 1-2svar sinnum í mánuði og því þurfum við að leggja mikla áherslu á skráningar í Huppu til þess að nýta þetta tæki sem erfðamatið er til fullnustu.
Ætterni þeirra gripa, sem kemur í ljós við greiningu að er rangt skráð, verður leiðrétt jafnharðan og niðurstöður berast. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart þó að ætterni gripa í Huppu taki breytingum. Ef ætterni hefur verið staðfest eða leiðrétt er hægt að sjá það með því smella á númer grips í gripalistanum og svo á flipann <Erfðamengi>. Þar má sjá númer sýnis, tegund, greiningarhlutfall (Call rate), greiningu (það er hvaða flaga var notuð), hvort ætterni er staðfest, óstaðfest eða leiðrétt, ástæðu fyrir leiðréttingu eða því að ekki er hægt að staðfesta ætterni og svo hvenær sýni er skráð. Með tíð og tíma munum við vonandi geta birt fleiri niðurstöður og þar má nefna atriði eins og litaerfðir og erfðir fyrir hornalagi svo dæmi séu tekin.
Mikilvægustu niðurstöðurnar eru hins vegar ætternisstaðfestingin og svo erfðamatið þegar það kemur. Erfðamat ungra kvígna má t.d. nota til úrvals en margt bendir til þess að svigrúm sé til þess að velja kvígur til mjólkurframleiðslu fyrr en nú er gert.