Er búið að taka sýni úr öllum ásettum hrútum? Eru öll sýni tengd við gripi inn í Fjárvís?

Nú styttist í að uppgjör fari fram á DNA sýnum vegna arfgerðargreininga með tilliti til mótstöðu gegn riðu. Eitt af því sem lögð er rík áhersla á er að allir ásettir hrútar landsins séu arfgerðargreindir. Matvælaráðuneytið niðurgreiðir greiningar á öllum ásettum hrútum og því kostar greiningin bóndann á hvern ásettan hrút 300 kr. án vsk, þegar styrkurinn hefur verið dreginn frá greiningarkostnaði.

Verkefnið verður gert upp eftir 12. desember. Þá verður miðað við að sýni úr öllum ásettum hrútum samkvæmt skýrsluhaldskerfinu Fjárvís sem hafa greiningu eða að sýni úr þeim sé skráð móttekið hjá RML, hljóti niðurgreiðslu. Ef bændur eiga enn eftir að taka úr ásetningshrútum, þyrfti því að klára það sem allra fyrst og koma sýninu á Hvanneyri eða starfsstöð RML í Reykjavík.

Önnur atriði sem mikilvægt er að skoða. Það þarf að vera búið að gera grein fyrir ásettum hrútum með skilum á haustbók. Ef búið er að senda sýni í greiningu en þau eru ekki skráð á gripi (sýni ótengd við grip) þyrfti að kippa því í liðinn hið fyrsta. Ekki er hægt að veita hvatningarstyrki t.d. vegna þess að sýnið sé úr ásettum hrút eða vegna þess að það er úr afkvæmi grips sem ber V eða MV arfgerð, ef sýnin eru ekki skráð á ákveðna gripi. Þeir sem sendu inn sýni í sýnahylkjum sem var úthlutað árin 2022 eða 2023 og telja sig eiga eftir að fá niðurstöður úr þeim sýnum er bent á að skoða hvort sýnið hafi verið rétt forskráð. 

/okg