Meira en 5000 hektarar skemmdir vegna kals

Eins og áður hefur komið fram er kaltjón á Norður- og Austurlandi verulegt. Ráðunautar RML hafa nú heimsótt flesta þá bændur sem þess hafa óskað og veitt þeim viðeigandi ráðgjöf. Í þessum ferðum hafa mjög margir bændur verið heimsóttir og því hafa ráðunautar RML ágæta yfirsýn yfir stöðuna eftir sveitum.

Segja má að staðan sé sláandi þegar allt tjón af völdum kals er tekið saman:

  • Ísafjarðardjúp og Strandir: Verst er ástandið við Steingrímsfjörð og við norðanvert Djúp.
  • Húnavatnssýslur: Mjög víða er kal til ódrýginda en aðeins á fáum bæjum er tjónið stórfellt.
  • Skagafjörður: Svæðin þar sem ástandið er verst eru Hjaltadalur, Óslandshlíð, út eftir Sléttuhlíð, Viðvíkursveitin og Hegranesið.
  • Eyjafjörður: Svæðin þar sem ástandið er verst eru Hörgárdalur og Öxnadalur.
  • Suður Þingeyjarsýsla: Svæðin þar sem ástandið er verst eru í Fnjóskadal, Reykjadal, Aðaldal og Mývatnssveit, en í raun er öll sýslan undirlögð.
  • Norður Þingeyjarsýsla: Svæðin þar sem ástandið er verst eru í Þistilfirði, Öxarfirði og Kelduhverfi.
  • Austurland: Svæðin þar sem ástandið er verst eru í Vopnafirði, Jökuldal, Jökulsárhlíð, Hróarstungu, Fellum, Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir áætlað tjón vegna kals á þeim bæjum þar sem tjónið er stórfellt og er hér miðað við að meira en 20% túnanna hafi kalið. Hér eru því ótaldir þeir bæir og tún þar sem kal verður vissulega til að ódrýgja heyfeng þetta sumarið. Það hefur því orðið verulegt tjón víða sem er ekki tiltekið hér. Rétt er að nefna að þetta er mat ráðunautanna á hverju svæði, en enn er verið að heimsækja bændur og skoða tún.

  Býli með stórfellt tjón Skemmdir hektarar
Ísafjarðardjúp og Strandir 8 80
Húnavatnssýslur 3 30
Skagafjörður 33 500
Eyjafjörður 38 900
Suður-Þingeyjarsýsla 100 1900
Norður-Þingeyjarsýsla 27 500
Austurland 60 1300
  269 5210

 

Til að setja þetta í samhengi við hvað það kostar að endurrækta einn hektara, þá eru það að lágmarki 100 þúsund kr. við bestu aðstæður fyrir utan áburðarkostnað. Kostnaðurinn við endurræktun 5210 hektara er því að lágmarki 520 milljónir.

bpb/okg